Um það bil 200 bandarísk fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á „gríðarstórri“ netárás, að sögn netöryggisfyrirtækisins Huntress Labs. Árásin beindist til að byrja með að hugbúnaðarfyrirtækinu Kaseya en dreifðist svo til fyrirtækja sem nota hugbúnað Kaseya.
BBC greinir frá.
Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að það sé nú að rannsaka „mögulega árás“.
Huntress Labs telur að REvil-gengið standi að árásinni en talið er að REvil starfi frá Rússlandi.
Netöryggis- og innviðastofnun Bandaríkjanna sagði í tilkynningu að hún væri að grípa til aðgerða til þess að bregðast við árásinni sem hófst síðdegis í gær, á sama tíma og fyrirtæki víða um Bandaríkin voru að loka sínum dyrum fyrir helgina.
Um er að ræða lausnargjaldsárás (e. ransomware). Slíkar árásir eru framkvæmdar með því að koma tölvuvírusum fyrir í tölvum sem hóta því að eyðileggja gögn eða orðspor fólks nema viðkomandi greiði glæpamanninum lausnargjald.