Stærra en þegar menn beisluðu eld

Sundar Pichai, forstjóri Google segir gervigreind og skammtatölvur næstu stóru …
Sundar Pichai, forstjóri Google segir gervigreind og skammtatölvur næstu stóru tæknibyltingar mannkynsins síðan veraldarvefurinn var fundinn upp. AFP

Stærstu tæknibyltingar næsta aldarfjórðungs verða gervigreind og skammtatölvur að sögn Sundar Pichai, forstjóra Google.

„Ég tel þetta vera áhrifamestu tæknina sem mannkynið mun vinna að og þróa,“ segir hann í viðtali við BBC. „Ef þú hugsar um það þegar menn beisluðu eld og lærðu að nýta sér hann í fyrsta sinn eða þegar menn fundu upp rafmagnið og veraldarvefinn. Þetta verður stærra en það“.

Gervigreind er í grunninn tilraun til þess að kenna tölvum að skilja og skynja umhverfi sitt þannig að þær geti tekið eigin ákvarðanir á svipaðan hátt og manneskjur. Ýmis gervigreindarkerfi eru nú þegar hæfari en manneskjur til að leysa tiltekin vandamál.

Með skammtatölvum komi nýjar lausnir

Skammatölvur eru svo allt annað fyrirbæri. Í mjög einföldu máli hafa skammtatölvur mun meiri geymslugetu og vinnsluhraða en hefðbundnar tölvur nútímans. Þannig er hægt að reikna skammtakerfi á mjög hagkvæman hátt með skammtatölvum.

Pichai og aðrir leiðandi tæknisérfræðingar segja tilkomu skammtatölva mjög spennandi.

„Það verður ekki hægt að nota skammtatölvur í allt en þær munu veita fræðimönnum fjöldan allann af nýjum lausnum sem aldrei hafa sést áður.“

Núna geta reikningar á eiginleikum atóma, sameinda eða þyrpinga atóma tekið frá klukkutímum upp í vikur og mánuði á mjög öflugum tölvum. Með skammtatölvu tækju slíkir reikningar örskotsstund og verkefni efnafræði, erfðafræði, eðlisfræði og efnistækni tækju stakkaskiptum sem við getum ekki látið okkur dreyma um, að sögn Viðars Guðmundssonar, prófessors í eðlisfræði við HÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert