Alls hafa nú 86,3% fullorðinna Íslendinga þegið bólusetningu við Covid-19; flestir hafa fengið Pfizer (126.899), þar á eftir AstraZeneca (55.108), Janssen (53.290) og loks Moderna (20.025).
Þessi bóluefni hafa mismunandi virkni en eiga þó öll það sameiginlegt að veita einhverja vörn gegn Covid-19. En hvernig virka þessi bóluefni og hvaða öryggisstaðla þurfa þau að uppfylla?
Á Vísindavefnum er það rekið hvernig seinni tíma bóluefni byggja flest á því að nota dauða, óvirka eða veiklaða sýkla eða einangruð efni úr viðkomandi sýkli, sem innihalda mótefnavaka sem vekur mótefnasvar í ónæmiskerfi líkamans. Eftir vel heppnaða bólusetningu, eða sýkingu með viðkomandi sýkli, eru mótefnin til staðar í blóðinu og vernda hinn bólusetta fyrir veikindum.
Orðið bólusetning á sér rætur að rekja til hins skæða sjúkdóms bólusóttar, sem drap 10-20% allra þar sem farsóttin geysaði fyrr á öldum, en talið er að 300-500 milljónir manna hafi látist af völdum bólusóttar á 20. öldinni. Það var breski vísindamaðurinn Edward Jenner (1749-1823) sem tók eftir því að mjaltakonur sem fengið höfðu kúabólu fengu ekki bólusótt – tók hann að rannsaka þetta og komst að því að smit með kúabólu veitti góða vörn gegn bólusótt. Markaði þessi uppgötvun upphaf bólusetninga – baki liggur að veirurnar sem valda bólusótt og kúabólu eru náskyldar.
Bóluefni gefa misgott mótefnasvar sem endist mislengi; sum bóluefni þarf að gefa tvisvar til þrisvar sinnum með hæfilegu millibili áður en komin er góð vörn sem endist í mörg ár. Jafnan tekur 5-10 daga fyrir mótefnin að ná fullum styrk í blóði, en hægt er að þróa bóluefni gegn flestum gerðum sýkla eins og bakteríum, veirum og frumdýrum.
Sömu reglur gilda um bóluefni og önnur lyf, þar sem bóluefni teljast til lyfja, og eru þær reglur alþjóðlegar og öllum skylt að fylgja. Í fyrstu eru gerðar undirbúningsrannsóknir en að þeim loknum hefjast dýratilraunir, sem venjulega eru gerðar í nokkrar vikur. Að því loknu er dýrunum slátrað og kannað hvort einhver líffæri sýni merki um skaða. Ef ekkert óvænt kemur í ljós við dýratilraunirnar geta rannsóknir á mönnum hafist.
Þær rannsóknir teljast til klínískra lyfjarannsókna og er skipt í fjóra fasa.
1. Lyfið er gefið litlum hópi sjálfboðaliða, oft innan við tíu manns, og kannað hvernig lyfið þolist.
2. Lyfið er gefið stærri hópi fólks og kannað áfram hvernig lyfið þolist, hvað verður um það í líkamanum, hvaða skammtar eru hæfilegir og loks leitað vísbendinga um lækningamátt. Þegar um bóluefni er að ræða er mótefnasvörun skoðuð sem aðalmælikvarði á verkun lyfsins en það getur líka þurft að skoða hvort þörf sé á fleiri en einum skammti.
3. Aðalrannsókn hefst, sem þarf að heppnast vel til þess að lyfið geti fengið markaðsleyfi og þar með komist í almenna notkun. Í þessum fasa er lyfið gefið miklum fjölda fólks en þegar um bóluefni er að ræða getur fjöldinn skipt tugum þúsunda. Í þriðja fasa er jafnframt fylgst vandlega með aukaverkunum og þær ávallt bornar saman við gagnsemi lyfsins; lyfið verður að gera meira gagn en skaða. Nánar á Vísindavefnum.
4. Eftir markaðssetningu lyfsins tekur við fjórði fasi, þar sem fylgst er vandlega með aukaverkunum – lyfið er gefið miklum fjölda einstaklinga til þess að finna sjaldgæfar aukaverkanir ef einhverjar eru.
Nokkur munur á Pfizer og Moderna bóluefnunum annars vegar og AstraZeneca og Janssen hins vegar. Fyrstu tvö teljast til mRNA bóluefna, sem innihalda erfðaefnissameind sem sett er í fituhjúp, svo frumur taki hana upp eftir bólusetningu. AstraZeneca inniheldur hins vegar veiklaða veiru sem notuð er til að hnýsa erfðaefni kórónuveirunnar.
Bóluefni Janssen inniheldur þá svokallaða adenóveiru, sem inniheldur genaupplýsingar til þess að framleiða svokölluð gaddaprótein kórónuveirunnar en þau er að finna á yfirborði veirunnar og eru henni nauðsynleg til að komast inn í frumur líkamans. Nánar má lesa sér til um bóluefnin á vef Lyfjastofnunar.