Íslenskt fjarskiptafélag í kynningu á iPhone 13

Ljósmynd/Samsett

Apple kynntu í dag nýjustu kynslóð snjallsíma sinna, iPhone 13. Þegar talað var um afrek fyrirtækisins þegar kemur að 5G fjarskiptatækninni voru talin upp hin ýmsu fyrirtæki sem unnið hafa með Apple í úbreiðslu á 5G tækninni. Þar mátti til að mynda sjá Nova á Íslandi.

„Heimurinn færist hratt í áttina að 5G. Við erum að taka höndum saman við fleiri samstarfsaðila fyrir bestu hljóðgæðin, afkastagetuna, þjónustusvæðið og batteríendinguna,“ sagði Kiann Drance, forstöðumaður markaðsetningar iPhone-síma hjá Apple, þegar hún kynnti nýja símann.

Á listanum, uppi í vinstra horninu, er kennimerki íslenska fjarskiptafyrirtækisins Nova en fyrirtækið setti 5G í loftið 5. maí í fyrra.

Kiann drance kynnir iPhone 13. Efst uppi, það þriðja frá …
Kiann drance kynnir iPhone 13. Efst uppi, það þriðja frá vinstri, er kennimerki íslenska fjarskiptafyrirtækisins Nova Skjáskot/Apple

Nova hafi leitt þróun 5G

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir í samtali við mbl.is að 5G-væðingin sé bara rétt að byrja. Nova hafi leitt þróun 5G á Íslandi og sé eina fjarskiptafyrirtækið á Íslandi sem býður 5G í farsíma.

Margrét Tryggvadóttir, lengst til vinstri, ásamt 5G teymi Nova þegar …
Margrét Tryggvadóttir, lengst til vinstri, ásamt 5G teymi Nova þegar fyrirtækið hóf prófanir á 5G farsíma- og netþjónustu.

„Sífellt fleiri tæki eru að koma inn á markaðinn sem styðja 5G-hraða, bæði símar og önnur nettengd tæki. Það er ekki ofsögum sagt að þetta er bylting fyrir notendur þar sem 5G býður upp á meiri afköst og nákvæmni en áður þekktist,“ segir Margrét. Hún segir iPhone vera vinsælasta farsímann hjá viðskiptavinum Nova og mikil spenna fyrir nýrri kynslóð sem kynnt var í dag, iPhone 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert