Fleiri skurðaðgerðir á fullu tungli

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Komið hefur í ljós að tíðni skurðaðgerða við lífshættulegri flysjun í brjóstholshluta ósæðar var marktæk meiri fyrstu dagana eftir fullt tungl.

Aukningin var þó tiltölulega lítil og orsakasambandið ekki augljóst. Því er talin þörf á frekari rannsóknum á viðfangsefninu, að því er segir á vef Landspítalans.

Í ritinu Interactive CardioVascular and Thoracic Surgery hefur verið birt vísindagrein um þetta sem íslenskir hjartaskurðlæknar komu að í samstarfi við 20 aðra kollega á sjö öðrum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum.

Rannsóknin náði til 2.995 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar á átta háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum 2005-2019. Könnuð var tíðni aðgerða eftir tunglhringnum og honum skipt í fjögur tímabil. Í ljós kom að aðgerðum fjölgaði í kringum fullt tungl og var tíðnin hæst fjórum til sex dögum frá fullu tungli.

Skýringin á þessari hækkun á fullu tungli er ekki talin augljós en svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert