Sár meðhöndluð með sáraroði grói hraðar

Kerecis byggir vöruþróun sína á efnum úr fiskroði.
Kerecis byggir vöruþróun sína á efnum úr fiskroði.

Sár meðhöndluð með sáraroði gróa hraðar en sár sem meðhöndluð eru með hefðbundinni aðferð samkvæmt nýrri grein í ritrýnda tímaritinu Wounds. Fram kemur í greininni að 67% sjúklinga sem meðhöndlaðir eru með sáraroði Kerecis ná bata. 

Í samanburðarhópi sjúklinga sem fengu hefðbundna meðferð gréru hins vegar einungis 32% tilfella og var munurinn tölfræðilega marktækur. Meðhöndlunartímabilið var 12 vikur. Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum lækna á sex bandarískum heilbrigðisstofnunum.

Í rannsókninni voru svokölluð sykursýkissár meðhöndluð.

„Niðurstöðurnar gefa sjúklingum sem þjást af alvarlegum sárum von um bata,“ er haft eftir Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra Kerecis í tilkynningu. 

„Sárin sem rannsökuð voru eru afskaplega alvarleg og leiða oft til alvarlegra heilsufarsvandamála og aflimunar. Niðurstöðurnar styrkja sáraroðstækni okkar enn frekar í sessi sem besta valkostinn til að meðhöndla þennan alvarlega kvilla,“ segir Guðmundur. 

Fram kemur í tilkynningu að rannsóknin bætist í safn fyrri rannsókna sem allar sýni fram á góða virkni sáraroðsins og er þriðja tvíblinda slembiraðara rannsóknin sem birt er. Fyrri rannsóknir hafa borið virkni sáraroðsins saman við virkni fjölmargra annarra meðferðarúrræða og má þar nefna samkeppnisvörur sem búnar eru til úr líknarbelgjum mannsfóstra og svínavef.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert