Gersemar geymdar til eilífðarnóns

AWA-safnið er í aflagðri kolanámu rétt fyrir utan Longyearbyen á …
AWA-safnið er í aflagðri kolanámu rétt fyrir utan Longyearbyen á Svalbarða. Náman er eign kolanámafélags í eigu norska ríkisins. Geymslan er um 300 metra inni í námagöngunum. Ljósmynd/AWA

Djúpt í iðrum gamallar kolanámu á Svalbarða eru ýmsir dýrgripir mannkyns geymdir til eilífðarnóns. Þeirra á meðal er stafrænt afrit af norskri þýðingu á Flateyjarbók, sem er stærst allra íslenskra skinnbóka. Hún er alls 202 blöð sem voru skrifuð undir lok 14. aldar og 23 blöð sem bætt var við bókina á síðari hluta 15. aldar. Það var The Saga Heritage Foundation sem afhenti bókina til geymslu. Stofnunin vinnur að rannsóknum í norrænum fræðum.

Safnið heitir Arctic World Archive (arcticworldarchive.org) – AWA. Samkvæmt heimasíðu AWA er geymslan hönnuð til að standa af sér flestar hörmungar af völdum náttúrunnar eða manna. Gögnin sem þar eru geymd eiga að varðveitast öldum saman. Megnið af efninu er varðveitt á stafrænu formi. Geymsluaðferðin og öryggi geymslunnar eru sögð tryggja geymslu gagnanna til langrar framtíðar. Safnið var stofnað árið 2017 af norska fyrirtækinu Piql AS (piql.com) sem þróaði geymslutæknina. Með henni eiga safngripirnir að varðveitast öldum saman og vera aðgengilegir í fjarlægri framtíð.

Inngangurinn að safni Arctic World Archive á Svalbarða.
Inngangurinn að safni Arctic World Archive á Svalbarða. Ljósmynd/AWA

Nú þegar hafa safngripir borist frá meira en 15 löndum. Geymslan er um 300 metra inni í göngum gamallar kolanámu í fjöllum Svalbarða. Nú hafa 42 þjóðir lýst því yfir að Svalbarði sé hernaðarlega hlutlaust svæði. Það hvað Svalbarði er fjarrri skarkala heimsins og kuldinn á þessum slóðum þykir auka á geymsluöryggið.

Safnið geymir meðal annars stafræn afrit af málverkum Rembrandts og Munchs. Þá er þar að finna ýmsa dýrgripi úr bókasafni Vatíkansins í Róm og fornar myndir úr Ajanta-hellunum í Indlandi, upplýsingar um ýmis vísindaleg afrek og menningararfleifð samtíma okkar. Einnig eru þar geymdar miklar upplýsingar um þróun tækni og hugbúnaðar. Þar á meðal grundvallarupplýsingar um stýrikerfi Linux og Android, ýmis þekkt forritunarmál, upplýsingar um rafmyntirnar bitcoin og ethereum, gervigreind og margt fleira.

Evrópska geimvísindastofnunin (ESA) hefur sett þar í geymslu margvíslegar upplýsingar um geimrannsóknir stofnunarinnar og myndasafn norska hersins sent stór myndasöfn til geymslu.

Að sögn AWA hafa safngripir þegar borist frá Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Mexíkó, Brasilíu, Ungverjalandi, Malasíu, Taílandi, Indlandi, Kanada, Slóvakíu, Kasakstan, Hollandi og Stóra-Bretlandi.

Piql AS þróaði piqlFilm-geymslumiðilinn sem þolir rafsegulgeislun og er endingargóður.
Piql AS þróaði piqlFilm-geymslumiðilinn sem þolir rafsegulgeislun og er endingargóður. Ljósmynd/AWA
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert