William Shatner á leið út í geim níræður

Leikarinn William Shatner er á leið út í geim með …
Leikarinn William Shatner er á leið út í geim með Blue Origin í næstu viku. AFP

Leikarinn William Shatner, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið kaptein James Kirk í Star Trek, mun fara út í geim með geimferðafyrirtækinu Blue Origin í næstu viku. Þetta staðfesti fyrirtækið í dag, en með því verður Shatner elstur manna til að halda út í geim.

Auk Shatners mun Audrey Powers, aðstoðarforstjóri Blue Origin, halda með í ferðina sem farin verður næsta þriðjudag. Fyrir hafði verið tilkynnt að Chris Boshuizen, fyrrverandi verkfræðingur hjá NASA, og Glen de Vries, meðstofnandi Medidate solutions, myndu eiga sæti um borð.

Í júlí varð Wally Funk elst allra til að fara út í geim, en hún var þá 82 ára gömul. Fór hún ásamt Jeff Bezos, stofnanda Amazon og Blue Origin, ásamt Mark Bezos, bróður Jeffs, og Oliver Daemen, 18 ára Hollendingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert