Leikarinn William Shatner, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið kaptein James Kirk í Star Trek, mun fara út í geim með geimferðafyrirtækinu Blue Origin í næstu viku. Þetta staðfesti fyrirtækið í dag, en með því verður Shatner elstur manna til að halda út í geim.
Auk Shatners mun Audrey Powers, aðstoðarforstjóri Blue Origin, halda með í ferðina sem farin verður næsta þriðjudag. Fyrir hafði verið tilkynnt að Chris Boshuizen, fyrrverandi verkfræðingur hjá NASA, og Glen de Vries, meðstofnandi Medidate solutions, myndu eiga sæti um borð.
Í júlí varð Wally Funk elst allra til að fara út í geim, en hún var þá 82 ára gömul. Fór hún ásamt Jeff Bezos, stofnanda Amazon og Blue Origin, ásamt Mark Bezos, bróður Jeffs, og Oliver Daemen, 18 ára Hollendingi.