Slær á orðróm um Facebook-gagnaleka

AFP

„Í þessu tilfelli er engin ástæða að ætla að það hafi orðið einhver gagnaleki. Það er ekki talið að þetta hafi verið viljaverk,“ segir Bjartur Thorlacius, sérfræðingur í tölvuöryggi hjá ástralska netöryggisfyrirtækinu Secure Code Warriors, um breytingar sem Facebook gerði á stillingum netbeina sem ollu því að þjónusta samfélagsmiðilsins, Instagram og Whatsapp lá niðri í sex klukkutíma í gær.

Hann telur líklegt að einhver starfsmaður hjá Facebook hafi breytt stillingum fyrirtækisins fyrir slysni þannig að það einfaldlega aftengdist netinu. Við þetta hafi fyrirtækinu hætt að berast nokkurs konar beiðnir eða netumferð.

„Það sem hefur þá gerst er að starfsmenn Facebook, sem ekki voru staðsettir sjálfir í gagnaverinu, misstu þá líka netsamband við tölvukerfið og gátu þarf af leiðandi ekki leiðrétt þessi mistök. Þeim tókst því að læsa bæði viðskiptavini sína og sig sjálfa úti.“

Bjartur Thorlacius, sérfræðingur í tölvuöryggi hjá ástralska netöryggisfyrirtækinu Secure Code …
Bjartur Thorlacius, sérfræðingur í tölvuöryggi hjá ástralska netöryggisfyrirtækinu Secure Code Warriors. Ljósmynd/Aðsend

Vegna sóttvarnaaðgerða hafi færri starfsmenn verið í gagnaveri Facebook en vanalega þegar upp komst um mistökin og því hafi þurft að senda sérfræðinga á staðinn til að leiðrétta þau. Illa hafi þó gengið að komast inn í gagnaverið þar sem netið lá niðri.

„Það tók sérfræðingana dágóðan tíma bara að koma sér niður í gagnaverið og svo inn í það. Það er að hluta til ástæðan fyrir því hve langan tíma það tók að koma þessu í lag.“

Veki fólk til umhugsunar um netöryggi

Spurður segir Bjartur ólíklegt að einhver gagnaleki hafi átt sér stað í kjölfar þessara mistaka.

„Það var einhver orðrómur um það að einhver starfsmaður Facebook hafi gert þetta viljandi, því þetta eru svo afdrifarík mistök að hafa læst alla úti. Þessi bilun er þó óvanaleg að því leytinu til að þetta voru bara heiðarleg mistök og það eina sem gerðist var að Facebook aftengdist netinu. Það var enginn sem tilkynnti að hann væri með nýja Facebook og því engin ástæða til að ætla að það hafi orðið einhver gagnaleki eða að einhver hafi verið að reyna að nýta sér þetta til að komast yfir upplýsingar.“

Bilun af þessu tagi ætti þó að vekja fólk til umhugsunar um hversu mikið það reiðir sig á tækni og hversu öruggar upplýsingar þess eru á netinu, að sögn Bjarts.

AFP

„Það mun alltaf eitthvað svona koma upp, alveg sama hvaða kerfi það er, það mun alltaf eitthvað bila. Ef niðurstaðan er sú að það hefur neikvæð áhrif á afkomu eða samskipti fólks þá ætti það alltaf að hafa einhverja varaleið en það er bara mat hvers og eins. 

Facebook getur til að mynda lesið flest skilaboð sem send eru yfir Messenger og Whatsapp, nema fólk biðji sérstaklega um að þau séu dulrituð. Fólk verður að spyrja sig hvort því þyki í lagi að einhver lesi yfir skilaboðin þeirra. Notendur Facebook hafa þó val um það núna að skilaboðin þeirra séu dulrituð. Þá getur Facebook sjálft ekki einu sinni lesið þau,“ segir hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert