Nýr landnemi af ætt hnífsskelja hefur fundist hér á landi. Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í Borgarfirði. Áður höfðu tvö eintök annarrar tegundar fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð 1957. Í millitíðinni hafði ekkert til slíkra samloka spurst hér á landi.
Fram kemur í tilkynningu á vef Náttúruminjasafns Íslands að sex tegundir hnífskelja hafi fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum, geta orðið allt að 20 sentímetra langar og þykja mikið hnossgæti.
Með erfðagreiningu hefur verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel. Tegundin hefur til þess aðeins fundist við Nýfundnaland.
Talið er að sindraskeljar hafi borist til Íslands með kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður-Ameríku, líklega fyrir um fimm til tíu árum.