Apple fjarlægir Kóran-app í vefverslun í Kína

Apple hefur fjarlægt trúarlega forritið Quaran Majeed úr App store …
Apple hefur fjarlægt trúarlega forritið Quaran Majeed úr App store þar sem það hýsti ólöglega trúarlega texta. AFP

Tæknifyrirtækið Apple hefur tekið snjallforritið Quaran Majeed úr vefverslun sinni App store í Kína, en um er að ræða eitt af vinsælli forritum heims til að lesa Kóraninn, trúarrit íslam. BBC greinir frá því að forritið hafi verið tekið út þar sem það hýsti ólöglega trúarlega texta.

PDMS, framleiðandi forritsins, sagði í tilkynningu að það hefði verið tekið úr App store í Kína vegna efnis sem þar væri að finna og kallaði á frekari skjöl og leyfi kínverskra yfirvalda. Fyrirtækið væri nú að reyna að komast í samband við yfirvöld til að leysa málið. Samkvæmt PDMS nota um milljón notendur forritið í Kína.

Íslam er viðurkennd trú í Kína, en stjórnvöld í Kína hafa hins vegar verið sökuð um mannréttindabrot og jafnvel glæi gegn mannkyninu vegna meðferðar sinnar á hundruðum þúsunda Úígúr-múslima í landinu. Um er að ræða „kerf­is­bundna fjöldafang­els­un, skipu­lagða af rík­inu, pynt­ing­ar og of­sókn­ir sem má líta á sem glæpi gegn mann­kyn­inu“, að því er seg­ir í nýlegri skýrslu Amnesty International um ástandið þar.

Þá hafa ímamar Úígúra verið sérstaklega teknir fyrir í aðgerðum Kínastjórnar í Xinjiang héraðinu í austurhluta Kína, en þar búa lang flestir Úígúra-múslimar í landinu.

Apple hefur neitað að tjá sig um ástæðu þess að Quaran Majeed var tekið úr vefversluninni í Kína, en vísaði í stefnu sína þegar kemur að mannréttindum. Þar kemur meðal annars fram að fyrirtækið þurfi að virða lög í hverju landi og að upp geti komið flókin mál þar sem Apple sé ekki endilega sammála viðkomandi ríki.

Enn er ekki fullkomlega ljóst hvaða reglur Quaran Majeed á að hafa brotið, en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem forrit eru tekin úr vefversluninni í Kína eða öðrum löndum. Bannar Kína meðal annars forrit þar sem minnst er á fjöldamorðið á Torgi hins himneska friðar, Dalai Lama, Falun Gong og sjálfstæði Taívan og Tíbet. Þá hefur aukin skriffinnska leitt til þess að sum fyrirtæki hætta við að hafa forrit sín aðgengileg í Kína.

Þannig ákváðu forsvarsmenn Olive tree‘s bible að taka forritið úr App store í Kína og vísuðu í að skort hefði leyfi frá yfirvöldum til að forritið gæti verið í vefversluninni. Þá var rafbókaverslunin Audible, sem er í eigu Amazon, tekin út vegna þess að það skorti  leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert