Tíðni blæðinga í meltingarvegi er mun hærri hjá þeim sjúklingum sem fengið hafa blóðþynningarlyfið Xarelto (rivaroxaban) en hjá þeim sem fengið hafa tvö önnur blóðþynningarlyf hér á landi. Þetta sýna niðurstöður nýrrrar rannsóknar vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala sem birtar eru í virtu alþjóðlegu vísindatímariti bandarískra lyflækna, Annals of Internal Medicine.
Rannsóknin náði til allra Íslendinga sem hófu meðferð með blóðþynningarlyfjunum Xarelto (rivaroxaban), Eliquis (apixaban) og Pradaxa (dabigatran) á fimm ára tímabili. Alls náði rannsóknin til 5.868 sjúklinga og var meira en helmingur þeirra á Xarelto.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tíðni blæðinga í meltingarvegi hjá þeim sem fengu Xarelto var 40-42% hærri en hjá þeim sem gefið var Eliquis og 63-104% hærri en hjá þeim sem fengu Pradaxa. Jafnframt reyndust alvarlegar meltingarvegsblæðingar mun algengari hjá þeim sem fengu Xarelto en hin tvö lyfin, en tíðnin var 49-50% hærri hjá þeim sem fengu Xarelto samanborið við Eliquis og 39-95% samanborið við Pradaxa. Niðurstöður rannsóknarinnar eru sambærilegar við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum, Bretlandi og Taívan.
Ein möguleg skýring á þessum mun er að Xarelto er gefið einu sinni á dag en hin lyfin eru gefin tvisvar á dag. Þetta veldur hærri hámarksstyrk lyfs í blóði og þar með fræðilega séð aukinni bælingu á storkukerfi líkamans.
Greinin er hluti af doktorsverkefni Arnars Braga Ingasonar í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands en verkefnið snéri að því að bera saman öryggi og virkni blóðþynningarlyfja. Rannsóknin var unnin undir handleiðslu Einars Stefáns Björnssonar, prófessors í lyflækningum.
Ofangreindar niðurstöður hafi mikla þýðingu þar sem þær geta nýst læknum við val á blóðþynningarmeðferð, sérstaklega fyrir sjúklinga sem talið er að séu í aukinni hættu á meltingarvegsblæðingum, að sögn Arnars.