Þjóðir heimsins stefna að því að framleiða yfir tvöfalt meira af kolum, olíu og gasi miðað við þau mörk sem hafa verið sett til að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar fari yfir 1,5 gráðu.
Í skýrslu umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna segir að stefna stjórnvalda hvað varðar framleiðslu á jarðefnaeldsneyti sé „hættulega úr takti“ við þau markmið sem hafa verið sett um að draga úr slíkri framleiðslu.
Tíu dagar eru þangað til loftslagsráðstefna verður haldin þar sem farið verður yfir stöðuna eftir Parísarsáttmálann árið 2015.
Að sögn Sameinuðu þjóðanna þarf útblástur að dragast saman um næstum 50 prósent fyrir árið 2030 og kolefnisjöfnun verður að nást að fullu um miðja öldina til að koma í veg fyrir að jörðin hlýni um meira en 1,5 gráður á öldinni en það markmið var sett á Parísarráðstefnunni.
Miðað við skýrslu umhverfisnefndarinnar er talið líklegt að framleiðsla jarðefnaeldsneytis aukist að minnsta kosti til ársins 2040.