Facebook ætlar að breyta nafni fyrirtækisins í næstu viku til að það passi betur við áætlanir um uppbyggingu svokallaðs „metaverse“.
Heimildarmaður greindi vefsíðunni The Verge frá þessu.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, er sagður ætla að fjalla um nafnabreytinguna á ráðstefnu sem verður haldin 28. október. Hugsanlegt er þó að hann greini frá nafninu fyrr.
Zuckerberg er sagður vilja að Facebook verði þekkt sem meira en samfélagsmiðill og það slæma sem hefur fylgt honum.
Exclusive: Facebook is planning to rebrand the company with a new name https://t.co/0NuPhWQsc5 pic.twitter.com/htkzkRBCGI
— The Verge (@verge) October 20, 2021
Líklegt er talið að Facebook verði eitt af vörumerkjum eins stórs fyrirtækis, sem myndi einnig hafa undir sínum hatti vörumerki á borð við Instagram, Whatsapp og Oculus.
Nú þegar eru yfir 10 þúsund starfsmenn Facebook að búa til hugbúnað sem verður notaður í „metaverse“.
Í júlí sagði Zuckerberg við The Verge að á næstu árum „munum við fara frá því að fólk tengi okkur bara við samfélagsmiðla yfir í það að vera metaverse-fyrirtæki“.