Sýndarveruleikaheimur Meta muni breyta öllu

Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri Sahara.
Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri Sahara. Ljósmynd/Aðsend

Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri Sahara segir í samtali við mbl.is nafnabreytingu móðurfyrirtækisins Facebook í Meta ekki stóru fréttina. Sá sýndarveruleikaheimur sem fyrirtækið hyggst stofna sé nýr raunveruleiki sem mun breyta heiminum.

Davíð segir Facebook vera að feta í sömu átt og WeChat hefur gert í Kína. Það er að samtengja allt undir eitt forrit. Með tilkomu sýndarveruleikaheimsins sem Meta hefur boðað verði möguleikarnir endalausir.

„Þetta er bara nýr raunveruleiki sem mun gjörsamlega breyta heiminum. Þú getir verið heima í stofu, sett upp gleraugun og þá ertu mættur á tónleikana sem haldnir eru á einhverjum allt öðrum stað í heiminum.“

Fyrsta útgáfa mögulega á næsta ári

Davíð segir næsta ár verða gríðarlega spennandi en þrátt fyrir að loka afurðin sé ekki tilbúinn þá séu þeir byrjaðir að vinna að þessu og jafnvel verði fyrsta útgáfa klár á næsta ári. Hann bendir þá einnig á að Facebook hyggst ráða um tíu þúsund manns í Evrópu á komandi árum til að vinna að þessum heimi.

„Ég sit hérna heima að horfa á þessa kynningu frá þeim og ég er hreinlega bara orðlaus. Maður man eftir heilmyndunum úr gömlu Star Wars myndunum og maður hugsaði bara glætan. En þeir eru heldur betur byrjaðir á þessu.“

Jákvæð áhrif á umhverfið

Þá bendir hann einnig á að sýndarveruleikaheimur gæti haft jákvæð áhrif er snýr að umhverfinu.

„Svona raunveruleiki mun að ég tel breyta töluvert vinnuumhverfinu. Fólk mun í minna mæli þurfa að mæta á vinnustaðinn sinn og mun einnig minna þurfa að fljúga milli landa, enda geti fólk hist á stafrænum vettvangi í staðinn.“

Spennandi en varhugavert

Að lokum bendir Davíð þá einnig á að þróunin sé varhugaverð og margt þurfi að hafa í huga þegar kemur að innleiðingu stafræns sýndarveruleikaheims í daglegt líf fólks.

„Við þekkjum það hvernig samfélagsmiðlar hafa stuðlað að auknum kvíða og þessháttar, sér í lagi meðal ungs fólks. Þegar að nýr heimur verður til þá þarf að fylgjast vel með hvernig við þróumst með þessu. Foreldrar, skólar og menntastofnanir þurfa að vera undirbúin í að kenna börnunum okkar á heiminn. Ekki að vakna þremur árum of seint þegar að við erum búin að taka þetta inn á vitlausum forsendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert