Umdeild tímasetning breytinga Facebook

Facebook breytti nafni fyrirtækisins í Meta í gær.
Facebook breytti nafni fyrirtækisins í Meta í gær. AFP

Tímasetning á breytingunum hjá Facebook, sem nú heitir Meta, hefur verið afar umdeild, sér í lagi í ljósi þess hve neikvæða gagnrýni fyrirtækið hefur hlotið á undanförnum misserum. Það eru þó alltaf tvær hliðar á teningnum. Þetta segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans og tækniáhugamaður, í samtali við mbl.is.

„Mark Zuckerberg hefur lengi talað um að vilja breyta nafni fyrirtækisins til að sýna að það sé miklu meira en bara samfélagsmiðillinn Facebook. Sem það er reyndar alveg, enda líka eigandi Instagram, Whatsapp og Oculus. Það er allavega ástæðan sem hann gefur fyrir þessum breytingum sem stofnandi og forstjóri félagsins.“

Tilraun til þess að bæta ímynd fyrirtækisins út á við

Guðmundur segist þó ekki geta neitað fyrir þann möguleika að nafnabreytingin sé tilraun fyrirtækisins til að bæta ímynd sína út á við, inntur eftir því.

Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans.
Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað eru þau líka að fjarlægja sig frá Facebook nafninu og því slæma umtali sem samfélagsmiðillinn hefur fengið. Facebook hefur verið í miklum ólgusjó síðastliðin ár. Fyrrum starfsmenn fyrirtækisins hafa lekið rannsóknum sem sýna fram á það hvað Facebook getur  verið hættulegt, m.a. með tilliti til líðan fólks. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að fyrirtækið hafi kosið að breyta ekki algrímum sínum þannig að samfélagsmiðillinn sýni notendum ekki efni sem er slæmt fyrir þá, vegna þess að fyrirtækið hefði tapað peningum á því.“

Það sé þó ólíklegt að nafnabreytingin ein og sér muni koma til með að bæta ímynd fyrirtækisins, að sögn Guðmundar.

„Ég held hún geri bara mjög lítið. Þarna er aðeins verið að breyta nafninu á móðurfélaginu sem er skráð á hlutabréfamarkaði. Gagnvart hinum almenna notenda skiptir þetta engu máli því öll smáforritin munu halda sínum heitum áfram.“

Eitthvað sem er of gott til að vera satt

Face­book seg­ir hið nýja nafn gefa skýr­ari mynd af því sem fyr­ir­tækið mun fást við en á meðal þess verður inn­koma á ný svið á borð við sýnd­ar­veru­leika, að því er greint frá í frétt BBC. 

„Bara á þessu ári hefur Facebook sett yfir tíu milljarða bandaríkjadala í þróun nýs sýndarveruleikaheims (e. metaverse) sem á að gera fólki kleift að hafa samskipti og deila upplifunum sem það gæti annars ekki gert í raunveruleikanum vegna fjarlægðar eða annarra ástæðna. Zuckerberg hefur sagt að þetta verkefni muni kalla á þúsundir ef ekki tugþúsundir nýrra starfa á næstu árum. Fyrirtækið er virkilega að veðja á að þetta sé næsta eðlilega skref í þróun internetsins og það ætlar að vera fyrst að stíga það skref,“ segir Guðmundur.

Að hans mati hljómi hugmyndin þó eins og eitthvað upp úr vísindaskáldsögu. Eitthvað sem er of gott til að vera satt.

„Ég held að þau hjá Meta viti það best sjálf að það eru mörg ár þar til þetta verður að einhverjum alvöru hlut sem allir vilja nota. Í dag er enginn að fara nota sýndarveruleikagleraugu í marga klukkutíma á dag. Þróun tækninnar er bara ekki komin þangað og við sem notendur ekki heldur tilbúin til þess,“ segir hann.

Þá sé sýndarveruleikatækni ekki komin nógu langt á veg til að hægt sé að segja hvort eitthvað sé varhugavert við hana eða ekki, segir Guðmundur inntur eftir því.

„Það er erfitt að segja þegar maður hefur ekki upplifað hana á eigin skinni en ég hugsa að margir þarna úti myndu hafa áhyggjur af því að það verði Facebook sem stýri þessum nýja sýndarveruleikaheimi, verði hann að veruleika. Fyrirtækið sem veit hvað mest um okkur og sagan segir að hugsi oftar um sína eigin hagsmuni heldur en hagsmuni notenda. Þetta er bara eins og í vísindaskáldsögunni Snow Crash, þar sem orðið Metaverse kom fyrst fram en í þeirri sögu var eitt fyrirtæki sem rak sýndarheim sem allir notuðu, sem var troðfullur af auglýsingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert