Fyrsta taflan við kórónuveirunni samþykkt

Fyrsta lyfið, sem hægt er að gefa um munn við …
Fyrsta lyfið, sem hægt er að gefa um munn við kórónuveirunni, molnupiravir, hefur verið samþykkt af breska lyfjaeftirlitinu. AFP

Fyrsta lyfið í töfluformi, sem ætlað er til meðhöndlunar við einkennum kórónuveirunnar, hefur verið samþykkt af breska lyfjaeftirlitinu.

Lyfið molnupiravir, sem er í töfluformi, verður gefið viðkvæmum sjúklingum sem hafa nýlega greinst smitaðir af kórónuveirunni, að því er fréttastofa BBC greinir frá.

Klínískar rannsóknir sýna fram á að notkun lyfsins, sem upphaflega var þróað til að meðhöndla flensu, minnkaði um helming hættuna á því að sjúklingar þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús, eða að þeir létust.

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir lyfjameðferðina „breyta leiknum“ fyrir þá allra veikustu.

„Í dag er sögulegur dagur fyrir landið okkar þar sem Bretland er nú fyrsta landið í heiminum til að samþykkja veirulyf við kórónuveirunni sem hægt er að taka heima,“ segir hann í yfirlýsingu.

Kaupa 480 þúsund skammta af lyfinu

Molnupiravir, þróað af bandarísku lyfjafyrirtækjunum Merck, Sharp and Dohme (MSD) og Ridgeback Biotherapeutics, er fyrsta veirulyfið við Covid-19 sem hægt er að innbyrða í töfluformi í stað þess að vera sprautað.

Bretland hefur samþykkt að kaupa 480 þúsund skammta af lyfinu og er fyrsta sendingin væntanleg í nóvember.

Til að byrja með verður lyfið gefið í tilraunaskyni bæði þeim sem hafa verið bólusettir og þeim sem eru óbólusettir, þar sem aukagögnum verður safnað um virkni þess áður en ákvörðun verður tekin um að panta meira af því.

Til að lyfjagjöfin skili árangri þarf að gefa lyfið innan fimm daga frá því einkenni gera vart við sig.

Ekki liggur fyrir hvernig lyfjastofnun hyggst dreifa lyfinu. Talið er að hluta skammtanna verði dreift á umönnunarheimili í landinu og að öðrum viðkvæmum hópum verið gert kleift að nálgast lyfið hjá sínum heimilislækni eftir að hafa greinst smitaðir í sýnatöku.

Jonathan Van-Tam, aðstoðaryfirlæknir Englands og prófessor, varaði í gær við að „erfiðir“ mánuðir væru fram undan í faraldrinum.

Hann sagði að á meðan fjöldi kórónuveirusmita virtist hafa náð stöðugleika væri dauðsföllum af völdum veirunnar að fjölga og að merki væru um að sýkingar væri farið að gæta hjá eldri aldurshópum.

Rúmlega 41 þúsund kórónuveirusmit greindust í Bretlandi á miðvikudaginn sl. Þá hafa 217 látið lífið innan 28 daga frá smiti.

Innblástur fenginn úr norrænni goðafræði

Nafn lyfsins, Molnupiravir, er ekki úr lausu lofti gripið heldur á það rætur að rekja í norræna goðafræði, að því að greint er frá í umfjöllun tímaritsins Atlantic. Þar segir George Painter, lyfjafræðingur við Emory-háskólann og einn af þeim sem kom að þróun lyfsins, að þrumuguðinn Þór og hamarinn hans Mjölnir hafi verið honum og samstarfsmönnum hans innblástur við nafngiftina.

„Við vildum að nafnið bæri hugmyndina um virkni, að lyfið geti stöðvað eitthvað,“ segir Painter í samtali við The Atlantic og vísar þar í The Hammer of God, vísindaskáldsögu Arthurs C. Clarke, sem fjallar um tilraun manna til að koma í veg fyrir að smástirni lendi á jörðinni.

Nafnið sé einnig vísun í hið öfluga verkfæri sem hamar getur verið, sé hann notaður rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka