Ísland hafði sigur í Cassini-hakkaþoninu

Sigurlið Cassini-hakkaþonsins 2021. Frá vinstri: Roman Pechenkin, Christina Rodriguez, Marco …
Sigurlið Cassini-hakkaþonsins 2021. Frá vinstri: Roman Pechenkin, Christina Rodriguez, Marco Pizzolato, Cécile Chauvat, og Filomena Cerniute. Á myndina vantar Söndru Rós Hrefnu Jónsdóttur. Ljósmynd/Landgræðslan

Alþjóðlegt teymi sex keppenda sem keppti fyrir hönd Íslands í Cassini-hakkaþoninu vann fyrstu verðlaun fyrir hugmynd sína um það hvernig nota mætti gervitunglamyndir til að meta landrof og landhnignun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landgræðslunni.

Finna lausnir á raunverulegum áskorunum

Hakkaþon sem einnig hafa verið nefnd lausnakeppnir eru nýsköpunarkeppnir þar sem þverfagleg lið vinna saman í afmarkaðan tíma við að finna lausnir á raunverulegum áskorunum sem lagðar eru fram. Liðunum býðst gjarnan ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem hjálpa þeim í gegnum ferlið, en fyrirtækið Startup Iceland sá um að styðja við íslenska liðið og sá einnig um framkvæmd keppninnar á Íslandi.

Cassini hakkaþonið er nefnt eftir fransk-ítalska stjörnufræðingnum Giovanni Cassini sem átti merkar uppgötvanir á sviði stjörnufræði á 17. öld og uppgötvaði m.a. fjögur fylgitungla Satúrnusar. Tilgangur Cassini-hakkaþonsins er að nýta þá möguleika sem evrópsk geimtækni býður upp á til að takast á við umhverfisáskoranir samtímans. Þrjú megin viðfangsefni voru upplegg keppninnar að þessu sinni; Öryggi á sjó, Líf á landi og Verndun náttúrulegs umhverfis. Áskorunin sem Landgræðslan lagði fram féll undir flokkinn Líf á landi og var skrifuð af þeim Jóhanni Þórssyni, Kristínu Svavarsdóttur og Bryndísi Marteinsdóttur.

Íslenska liðið samanstendur af líffræðingi, sérfræðingi í landfræðilegum upplýsingakerfum, frumkvöðli og þremur forriturum. Auk Íslands koma meðlimir frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Sviss, Svíþjóð og Rússlandi.

Cassini-hakkaþonið er nýsköpunarkeppni þar sem þverfagleg lið vinna saman í …
Cassini-hakkaþonið er nýsköpunarkeppni þar sem þverfagleg lið vinna saman í afmarkaðan tíma við að finna lausnir á raunverulegum áskorunum sem lagðar eru fram. Mynd/Evrópusambandið

Vöktu í 40 tíma til að ná skilafrestinum

Úrlausn liðsins snýst um að nýta landfræðileg gögn og myndir sem koma frá gervitunglum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar til að greina frumstig landeyðingar og hnignunar á heimskautaslóðum en einnig að geta metið breytingar á ástandi lands. Sú nálgun gefur möguleika á að nálgast upplýsingar um landeyðingu og uppblástur sem hafa hingað til verið að mestu verið aðgengilegar í gegnum hefðbundnar rannsóknir og mælingar á jörðu niðri. Með því að nýta gervitunglamyndir og gögn á þennan hátt getur sparast mikill tími og kostnaður og matsferlið orðið skilvirkara.

Fyrirtækið Startup Iceland sem hefur sérhæft sig í að styðja við sprotafyrirtæki á alþjóðavettvangi mun í framhaldinu vinna með liðinu við að þróa vinningshugmyndina og uppbyggingu fyrirtækis í kringum hana.

Hakkaþonið var annað i röðinni af sex sem eru haldin á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Alls tóku 70 sprotafyrirtæki og 300 einstaklingar í 10 löndum  þátt í keppninni. Lokaspretturinn tók á og þurftu sumir keppenda sigurteymisins að vaka samfellt í 40 tíma til að ná settum skilafresti sem var 7. nóvember síðastliðinn.

Verðlaunin voru um 5.000 evrur auk 100 klukkustunda ráðgjöf til þróunar verkefnisins frá umhverfis- og tæknisérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar.

Frekari upplýsinga um verkefnið má nálgast á vef verkefnisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert