Deildarmyrkvi sjáanlegur á landinu öllu

Deildarmyrkvi verður sjáanlegur um land allt í fyrramálið.
Deildarmyrkvi verður sjáanlegur um land allt í fyrramálið. Kristinn Magnússon

Landsmenn geta á morgun virt fyrir sér deildarmyrkva á tungli, að því gefnu að veður leyfi. Sævar Helgi Bragason, oft kallaður Stjörnu-Sævar, gerði tunglmyrkvann að umfjöllunarefni sínu í pistli á vefsíðunni stjörnufræði.is nú á dögunum.

Deildarmyrkvinn mun hefjast kl. 07:19 í fyrramálið og nær hann hámarki kl. 09:03. Tunglið mun þó setjast kl. 10:20 sem er áður en myrkvanum lýkur.

Sævar bendir á í pistlinum að ekki sé þörf á að notast við nein hjálpartæki til þess að fylgjast með myrkvanum, augun ein nægi. Þó sé eflaust skemmtilegra að notast við handsjónauka eða stjörnusjónauka.

Ýmsar tegundir myrkva 

Tunglmyrkvar verða þegar sól, jörð og tungl mynda nærri því beina línu. Tunglmyrkvar sjást aðeins á fullu tungli og frá allri næturhlið jarðar í einu.

Tunglmyrkvar geta þá verið þrenns konar; hálfskugga-, deildar og almyrkvar. Myrkvinn sem verður sjáanlegur í fyrramálið er eins og áður segir deildarmyrkvi og þegar hann nær hámarki munu um 97% tunglsins vera almyrkvuð.

Langt í næsta stóra deildarmyrkva

Sævar segir einnig í pistlinum að þegar deildarmyrkvinn hefst mun tunglið vera lágt á lofti í vestri en nálægt sjóndeildarhring í vest-norðvestri við hámarkið. Ætli fólk sér að sjá myrkvann er mikilvægt að hvorki há fjöll né háar byggingar skyggi á útsýnið til vesturs.

Þá bendir hann einnig á að tunglmyrkvinn standi yfir í sex klukkustundir og tvær mínútur sem gerir hann að lengsta deildarmyrkva frá 18. febrúar árið 1440 og að næsti álíka langi deildarmyrkvi verði 8. febrúar árið 2669. Því er næsta víst að unnendur deildarmyrkva mega ekki láta þennan fram hjá sér fara, enda útilokað að þeir sjái næsta langa deildarmyrkva.  

Stjörnu sævar er meðal okkar fremstu stjörnusérfræðinga.
Stjörnu sævar er meðal okkar fremstu stjörnusérfræðinga. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert