Samtök vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda er nýr starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Stofnfundur samtakanna var haldinn fimmtudaginn 18. nóvember í Hörpu. Í samtökunum eru fyrirtæki sem öll eru tengd vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu.
Í tilkynningu kemur fram að þessi nýju samtök hafi það sameiginlegt að markmiði að fræða almenning, atvinnulíf og stjórnvöld um umhverfislegan og efnahagslegan ávinning vetnis.
Samtökunum er auk þess ætlað að hafa áhrif á mótun nýrra staðla og regluverks þar sem miðað er að samkeppnishæfum starfsskilyrðum.
Í stjórn Samtaka vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda eru Auður Nanna Baldvinsdóttir, IðunnH2, formaður, Eyjólfur Lárusson, Carbon Iceland, Hallmar Halldórsson, Clara Artic Energy, og Tryggvi Þór Herbertsson, Qair Iceland.