Stinningarlyfið viagra gæti reynst gagnlegt í meðferð við alzheimersjúkdómnum, samkvæmt nýrri bandarískri vísindarannsókn.
Hundruð milljóna manna um allan heim þjást af taugahrörnunarsjúkdómnum alzheimer, sem er ein algengasta orsök heilabilunar. Þrátt fyrir vaxandi fjölda greininga hefur engin árangursrík meðferð við sjúkdómnum fundist ennþá en það gæti verið að breytast.
Með genakortlagningu hafa vísindamenn við Cleveland Clinic nú rannsakað 1.600 lyf, sem samþykkt hafa verið af matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, og gagnsemi þeirra í meðferð við sjúkdómnum, að því er The Guardian greinir frá.
Kortlagningn leiddi í ljós að stinningarlyfið sildenafil, betur þekkt sem viagra, bætti heilastarfsemi og minni verulega og gæti þar af leiðandi gagnast vel í meðferð við alzheimer.
Vísindamenn notuðu svo gagnagrunn sem inniheldur heilsufarslegar upplýsingar sjö milljóna Bandaríkjamanna til að bera saman heilsu þeirra sem notuðu sildenafil að staðaldri og þeirra sem notuðu lyfið ekki.
Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem notuðu sildenafil voru 69% ólíklegri til að fá alzheimersjúkdóminn en þeir sem notuðu lyfið ekki.
Rannsóknin sýnir þó ekki fram á orsakatengsl milli notkunar sildenafil og alzheimer, að sögn Feixiong Cheng, sem fór fyrir hópi vísindamannanna í rannsókninni. Til að meta virkni sildenafil í þessum tilgangi þurfi að framkvæma slembirannsókn með þátttakendum af báðum kynjum sem fengju ýmist lyfið eða lyfleysu.