Frumgerð að sleikjanlegum sjónvarpsskjá, sem getur líkt eftir matarbragði, hefur verið þróuð af japönskum prófessor.
Skjárinn ber heitið Taste-the-TV og er notast við tíu dósir af bragðefnum sem spreyja úða á skjáinn svo notandi getur sleikt og fundið bragðið af þeirri matvöru sem á skjánum er.
„Markmiðið er að gera fólki kleift að upplifa eins og það sé að borða á veitingastað, jafnvel þótt það sé hinum megin á hnettinum eða heima hjá sér,“ sagði prófessor Homei Miyashita, sem þróað hefur skjáinn.
Hann sagði við fréttastofu Reuters að hægt væri að nota skjáinn til þess að þjálfa kokka í fjarnámi og að ef farið verður að framleiða slíka skjái myndi hver og einn kosta um 875 bandaríkjadali, eða um 100 þúsund íslenskar krónur.
Miyashita er í viðræðum við framleiðendur um aðrar mögulegar útfærslur á bragðefnatækni sinni og hefur ein hugmyndin verið að bæta bragði við ristað brauð.