Gervihnettir Musks valda usla

Elon Musk, stofnandi SpaceX.
Elon Musk, stofnandi SpaceX. AFP

Yfirvöld í Kína kvarta nú undan gervihnöttum auðkýfingsins Elons Musks eftir að hnettirnir rákust nærri á kínversku geimstöðina fyrr á árinu.

Á vef BBC er greint frá því að tvö atvik hafi átt sér stað á árinu, 1. júli og 21. október, þar sem Starlink-gervihnettir Musks hafi nærri rekist á geimstöðina.

Kínversk yfirvöld hafa lagt inn kvörtun hjá geimferðastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin hefur ekki staðfest að atvikin hafi átt sér stað.

Markmið Starlink-verkefnisins er að dreifa nettengingu um allan heiminn. Nú þegar hafa um 1.900 gervihnettir verið sendir út í geim í nafni verkefnisins og er áætlað að senda þúsundir til viðbótar.

Eftir að kvörtun kínverskra yfirvalda var gerð opinber hefur fyrirtæki Musks, SpaceX, hlotið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert