James Webb-geimsjónaukinn hefur lokið við að þenja út spegla sína, á sama tíma og hann er á leið til áfangastaðarins sem er í 1,5 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu.
Verkfræðingarnir sem vinna að verkefninu fögnuðu glatt við Geimsjónaukavísindastofnunina í Baltimore í Bandaríkjunum, þegar geimferðastofnunin NASA tilkynnti að síðasti speglavængur tækisins hefði verið þaninn að fullu.
„Hversu ótrúlegur áfangi,“ sagði Thomas Zurbuchen, háttsettur verkfræðingur NASA, um leið og ljóst varð að þessi hluti verkefnisins væri að baki.
Sjónaukinn er risavaxinn og flókinn. Spegillinn, sem notaður er til að safna upplýsingum, er 6,5 metrar í þvermál, þrisvar sinnum stærri en á Hubble-sjónaukanum.
Er hann búinn til úr 18 sexhyrndum minni speglum úr gullhúðuðu berylíni sem getur endurvarpað innrauðu ljósi frá ystu mörkum alheimsins. Brjóta þurfti spegilinn saman svo hann kæmist fyrir í Ariane-5-eldflauginni.
Að brjóta hann aftur í sundur hefur verið erfitt og krefjandi verkefni.