Mihaly Csikszentmihalyi áhrifamikill fræðimaður

Flæði hefur jákvæð áhrif á bæði sköpun, framleiðni og vellíðan.
Flæði hefur jákvæð áhrif á bæði sköpun, framleiðni og vellíðan. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ungversk-bandaríski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi hafði mikil áhrif með kenningum sínum um flæði. Viðar Halldórsson og Hermundur Sigmundsson fjalla um fræðimanninn, sem lést í lok liðins árs.

Hvað einkennir okkur þegar okkur líður vel, þegar við erum í stuði, þegar við gerum góða hluti, og þegar allt gengur einhvern veginn upp? Á slíkum stundum þá erum við að upplifa það sem ungversk-bandaríski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi kallaði flæði (e. flow). Flæðiskenning Csikszentmihalyis hefur haft mikil áhrif síðustu áratugina á hugmyndir okkar um vellíðan, sem og nám, færniþjálfun og árangur. Fræðilegar tilvitnanir í verk Csikszentmihalyis, (þ.e. í hvað mörgum vísindagreinum hefur verið vitnað í verk hans) eru komnar yfir 155.000, og virðist ekkert lát vera á að leitað sé í verk hans, sem endurspeglar styrk og áhrif kenningarinnar í fræðunum. Flæðiskenning Csikszentmihalyis hefur jafnframt verið nýtt af þjóðarleiðtogum, stjórnendum, kennurum og þjálfurum víða um heim og hefur Csikszentmihalyi jafnan verið nefndur sem faðir jákvæðrar sálfræði.

Mihaly Csikszentmihalyi

Mihaly Csikszentmihalyi (til glöggvunar má geta þess að nafn hans er borið fram: Mee-high Cheek-sent-me-high-ee) fæddist þann 29. september árið 1934 á Ítalíu af ungverskum foreldrum. Hann fluttist ungur til Bandaríkjanna og lærði sálfræði í Chicago-háskóla og útskrifaðist með doktorsgráðu í sálfræði árið 1965. Csikszentmihalyi hefur gefið út fjölda vísindagreina og bóka sem notið hafa almennra vinsælda innan og utan fræðasamfélagsins. Þekktastur er Csikszentmihalyi þó fyrir kenningu sína um flæði. Mihaly Csikszentmihalyi lést þann 10. október síðastliðinn, 87 ára að aldri. Af því tilefni er við hæfi að fara hér stuttlega yfir framlag Czikszentmihalyis til fræðanna og er þessum pistli sérstaklega ætlað að varpa ljósi á mikilvægi kenningar hans um flæði fyrir almennan skilning okkar á námi, færniþjálfun, vellíðan og árangri í víðu samhengi þessara hugtaka.

Flæði

Eitt megineinkenni þess að lifa hamingjuríku, árangursríku og merkingarbæru lífi er þegar einstaklingar upplifa það sem Csikszentmihalyi kallaði flæði. Flest þekkjum við vel hversu gaman það er að sigrast á verðugri áskorun þar sem innri gleðin sem maður upplifir eftir að hafa lagt mikla vinnu og atorku í verkefni er oft ólýsanleg. Það að ná að standast áskorun í einhverju sem krefst þess besta frá okkur og að skila vel heppnuðu verki veitir einstaklingum innri vellíðan. Þessir þættir tengjast hugmyndum Aristotelesar um að hver einstaklingur óski fyrst og fremst eftir því að rækta möguleika sína og í gegnum athafnir sínar geti hann sýnt getu sína til að framkvæma. Nám er að þessu leyti jákvæð og uppbyggileg leit í því að nýta möguleika okkar.

Flæði hefur jákvæð áhrif á bæði sköpun, framleiðni og vellíðan. Flæðiskenning Csikszentmihalyis byggir í grunninn á því að þegar áskoranir sem einstaklingar standa frammi fyrir eru í samsvari við færni þeirra (e. action capacity) þá eru forsendur fyrir því að þeir geti upplifað flæði.

Bestu augnablik lífs okkar eiga sér vanalega ekki stað þegar við erum í einhvers konar afslöppun... Bestu augnablikin eiga sér stað þegar það virkilega reynir á hug okkar og líkama þar sem við leggjum okkur að öllu afli fram við að sigrast á einhverju sem er okkur verðugt og erfitt (Csikszentmihalyi, 2002, bls. 3).

Mikilvægur hluti kenningarinar snýr að innri áhugahvöt einstakingsins (e. intrinsic motivation). Innri áhugahvöt einstaklinga er lykill þeirra að frekari ástundun, einbeitingu og skuldbindingu þeirra að verkefnum og getur þannig kveikt elda hjá einstaklingum sem knýr þá áfram til að leggja sig fram við verkefni af heilum hug, og standa af sér alls kyns mótlæti á leiðinni. Ef jafnvægi næst á milli færni og áskorunar þá myndast kjöraðstæður fyrir eflingu innri áhugahvatar fyrir athæfinu sem um ræðir. Þetta hafa framleiðendur tölvuleikja til að mynda nýtt sér með því að hafa leikina frekar einfalda í byrjun en gera spilun þeirra svo sífellt meira krefjandi eftir því sem færni og geta þeirra sem spila leikina eykst með aukinni spilun. Þannig leitast tölvuleikjaframleiðendur alltaf eftir því að halda þessu jafnvægi á milli færni og áskorunar, í þeim tilgangi að auka áhuga notenda og skuldbindingu gagnvart spilun leikjanna.

Mynd: Flæði þegar áskoranir eru miðaðar við færni

Jákvæð styrking til fólks sem tekst á við krefjandi verkefni hefur einnig verið talin mikilvæg í þessu samhengi. Jákvæð og markviss endurgjöf styrkir ferilinn að markmiðinu með því að styrkja net af taugafrumum sem notuð eru í verkefninu (dópamín styrkir samband milli taugafrumna) og hefur þannig mikil áhrif á nám og færniþróun. Jákvæð styrking er einnig mikilvægur þáttur í að styrkja og efla áhugahvöt, sjálfsmynd og hugarfar grósku (e. growth mindset). Sumir muna allt sitt líf þá jákvæðu styrkingu sem þeir fengu frá foreldrum, kennurum eða öðrum sem létu sér annt um velferð þeirra og vegferð.

Aftur á móti ef einstaklingur er með takmarkaða færni á ákveðnu sviði en þarf að takast á við of stórar áskoranir, sem hann telur sig ekki ráða við, þá upplifir einstaklingurinn kvíða. Á hinn bóginn, ef einstaklingur er með mikla færni á ákveðnu sviði en þarf að takast á við litlar áskoranir, sem reyna ekki á færni hans, þá upplifir einstaklingurinn leiða. Fyrir einstaklinginn að upplifa flæði veltur því á að hann fái réttar áskoranir miðað við þá færni sem hann býr yfir hverju sinni, ásamt jákvæðri styrkingu. Ef jafnvægi næst á milli færni og áskorunar í þeim verkefnum sem einstaklingurinn tekur sér fyrir hendur þá mótast og styrkist sá grundvöllur sem hann hefur til að læra og bæta sig. Í einföldu máli þá má skýra flæðiskenninguna á þann hátt að ef það eru gerðar of litlar kröfur til fólks (miðað við færni) þá leiðist því, en ef kröfurnar eru of miklar (miðað við færni) þá fyllist það kvíða. Flæði á sér stað á bilinu á milli leiða og kvíða. Þegar jafnvægi næst á milli áskorunar og færni einstaklings í ákveðnu athæfi, þá þarf einstaklingurinn að leggja sig allan fram og ná að einbeita sér að verkefninu. Flæði einkennist þannig af því að vera í stuði, finna til sín, og gleyma stund og stað við lausn fjölbreyttra verkefna.

Áhrif kenningarinnar og arfleið Csikszentmihalyis

Kenning Csikszentmihalyis er undirstaða fyrir skilning okkar á almennum forsendum hamingjuríks lífs, sem og uppeldis, kennslu og þjálfunar á ólíkum sviðum. Kenningin varpar jafnframt ljósi á hvernig afburða uppalendur, eins og foreldar, kennarar og þjálfarar, veita einstaklingum réttar áskoranir til að vinna eftir og jákvæða og markvissa endurgjöf sem styðja og hvetja til frekari framfara. Skilningur okkar á lykilatriðum flæðiskenningarinnar er því mikilvægur til að finna út hvaða áskoranir hver einstaklingur þarf hverju sinni.

Í störfum okkar beggja, sem leiðbeinendur í skóla og í íþróttastarfi, þá hefur flæðiskenning Csikszentmihalyis reynst okkur mikilvæg því grunnskilningur á forsendum kenningarinnar hefur gert okkur kleift að hjálpa einstaklingum að byggja upp færni með því að notast við viðeigandi áskoranir, sem hafa hjálpað til að byggja upp innri áhugahvöt og þrauseigju einstaklinga við að sigrast á áskorunum og taka framförum. Flæðiskenning Csikszentmihalyis er þannig mikilvæg fyrir árangur og vellíðan, sem nýtist okkur öllum í námi, starfi og einkalífi.

Þess má að lokum geta að Csikszentmihalyi skrifaði bókarkafla um flæði og nám í bók Hermundar Sigmundssonar, Læring og ferdighetsutvikling, sem gefin var út í Noregi 2008. Framlag Csikszentmihalyis til fræðanna og samfélagsins verður seint metið til fulls. Hafðu bestu þakkir fyrir kæri Meeh-high.

Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar rannsóknasetur við Háskóla Íslands og Viðar er prófessor við Háskóla Íslands.

Ungversk-bandaríski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi hafði mikil áhrif með kenningum sínum um flæði. Viðar Halldórsson og Hermundur Sigmundsson fjalla um fræðimanninn, sem lést í lok liðins árs.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar rannsóknasetur við Háskóla Íslands. Kristinn Magnússon
Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert