Íslenskir áhugamenn um stafsetningu og orðaleiki geta glaðst yfir því að tölvuleikurinn Orðla hefur litið dagsins ljós.
Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri og stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Grid, deildi leiknum á Twitter í gær með skilaboðunum: „Góða skemmtun.“
Orðla er íslensk útgáfa af bandaríska tölvuleiknum Wordle sem hefur vakið mikla lukku netverja undanfarnar vikur.
Josh Wardle, hugbúnaðaverkfræðingur og upphafsmaður tölvuleiksins vestan hafs, sagði í viðtali við New York Times á dögunum að upphaflega hefði orðaleikurinn eingöngu verið ætlaður nánustu fjölskyldu. Vinsældir hans meðal fjölskyldunnar hafi aftur á móti orðið til þess að hann ákvað að gera leikinn aðgengilegan öllum í október á síðasta ári.
Rúmlega tveimur mánuðum síðar hafa yfir 300 þúsund spilað hann.
Leikurinn sem um ræðir gengur út á það að spilarar eiga að giska á eitt orð og hafa þeir sex tilraunir til þess. Við hverja ágiskun fá spilarar meldingu um hvort bókstafirnir sem þeir hafa valið tilheyra orðinu sem leitast er eftir – og hvort stafirnir séu rétt staðsettir.
Þrátt fyrir að leikurinn geti reynst ávanabindandi þá er hann ekki tímafrekur, þar sem einungis er hægt að spila hann einu sinni á dag, til að finna orð þess dags.