Lestur - frá hinu einfalda til hins flókna

Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við verkefnið Kveikjum neistann.
Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við verkefnið Kveikjum neistann.

Verkefninu Kveikjum neistann er ætlað að efla lestrarkennslu þannig að nemendur fái öflugan stuðning þegar í upphafi og eigi auðveldara með að öðlast lestrarfærni. Hermundur Sigmundsson, Helgas Sigrún Þórsdóttir, Herdís Rós Njálsdóttir og Svava Þ. Hjaltalín skrifa um verkefnið.

Kveikjum neistann nálgunin sem nú er farið eftir í fyrsta bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja snýst um að leggja mikla áherslu á lestrarkennslu byrjenda. Markmiðið er að 80-90% nemenda teljist fulllæs eftir 2. bekk. Stöðumat er notað frá fyrsta mánuði í skólanum, sem tryggir eftirfylgni og þess gætt að áskorun hvers barns sé í samræmi við færni þess. Með stöðumati í grunnþáttum lestrar við upphaf skólagöngu geta kennarar fylgst með stöðu nemenda og veitt þeim öllum öflugan stuðning strax í byrjun lestrarnáms. Börn koma misvel undirbúin fyrir námið, allir hafa þó sína styrkleika og veikleika. Það er því mikilvægt að kortleggja stöðu þeirra strax í upphafi lestrarnámsins og veita þeim þjálfun og áskoranir við hæfi. Einfalda lestrarlíkanið (e. Simple View of Reading) hefur vakið mikla athygli síðustu áratugi. Samkvæmt því samanstendur lestur af tveimur þáttum, umskráningu og málskilningi. Ekki er því hægt að tala um virkan lestur nema þessi tvö ferli vinni saman. Lestrarfærni = umskráning x málskilningur.

Umskráning: Börn læra ekki sjálfkrafa tengsl stafa og hljóða með því að sjá ritmál og þekkja orðmyndir. Það þarf að vekja athygli þeirra á þessum tengslum og kenna þeim bókstafina, hljóð þeirra og hvernig hægt er að tengja þá saman. Þannig að mikilvægt er að börn læri bókstafi og hljóð þeirra, geti tengt saman tvö hljóð, þrjú hljóð og að lokum brotið lestrarkóðann. Barnið getur lesið orð, stuttar setningar með stórum og litlum bókstöfum.

Málskilningur: Er skilningur á tungumálinu, það að skilja orð og orðasambönd. Málskilningur er skilningur og þekking á mæltu máli og uppbyggingu þess. Málskilningur er undirstaða lesskilnings. Færir lesarar búa yfir góðri málfærni og ríkulegum orðaforða og eiga því auðvelt með að öðlast skilning á merkingu textans. Þjálfun á þessum þáttum er mikilvæg en þegar umskráningu er náð þarf að lesa mikið af texta og leggja áherslu á að skilja þann texta sem maður les. Aðgengi að fjölbreyttum textum sem hæfa mismunandi lestrarfærni barna þarf því að vera gott. Einstaklingur sem ekki hefur vald á umskráningu getur ekki lesið. Einstaklingur sem ekki skilur texta er ekki læs. Til að ná góðum lesskilningi þurfa nemendur að skilja meginhluta þeirra orða sem þeir lesa. Málskilningur þeirra fer að skipta meira máli eftir því sem nemendur eldast og rætur hans liggja í orðaforða hvers og eins.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í …
Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í Þrándheimi og prófessor við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, MVS, við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kenning Csikszentmihalyi um flæði (sjá mynd) er ein af lykilkenningum verkefnisins Kveikjum neistann! Eins og við sjáum á myndinni þá er mikilvægt að fara frá hinu einfalda til hins flókna, þar sem áskoranir eru í samræmi við færni. Þar er lykillinn að sérhver einstaklingur fái réttar áskoranir sem við köllum einstaklingsmiðað nám. Þannig kemst einstaklingurinn í flæði og öðlast leikni (e. Mastery). Myndin sýnir einnig mismunandi áherslu hvað viðkemur nálgunina í lestrarkennslunni. Hljóðaaðferð kennd í byrjun þar til að viðkomandi einstaklingur hefur brotið lestrarkóðann. Þá tekur við þjálfun með áherslu á að efla orðaforða og lesskilning.

Helga Sigrún Þórsdóttir, kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Vestmannaeyja og læsisfræðingur.
Helga Sigrún Þórsdóttir, kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Vestmannaeyja og læsisfræðingur.

Verkefnið Kveikjum neistann byggir sína nálgun á lestrarkennslu byrjenda á einfalda lestrarlíkaninu. Það er stutt af fremstu fræðimönnum heims á þessu sviði eins og Heikki Lyytinen, Kate Nation, Maggie Snowling, Monica Leirvåg og Stanislas Dehaene. Rannsóknir hafa sýnt að líkanið skýri um 96% af lestrarfærni. Að auki byggir verkefnið á kenningu Csikszentmihalyi.

Stöðumatsprófið „Bókstaf-hljóða“-próf gegnir mikilvægu hlutverki til að sjá stöðu hvers nemanda og að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni. Við skólabyrjun (september) í Vestmannaeyjum gátu 58,3%, barna í 1. bekk, lesið orð með stórum bókstöfum, höfðu brotið lestrarkóðann og 29,2% gátu lesið setningar með stórum bókstöfum.

Út frá þessum niðurstöðum voru send heim bókstafaspil til að æfa tengingu bókstafs og hljóðs ásamt einföldum tengiheftum. Mikil áhersla er lögð á að hver nemandi fái áskorun í lestri miðað við færni. Í því felst til dæmis að heimalestrarbækur hæfa hverju barni, eru hvorki of erfiðar fyrir barnið né of léttar. Lestrarbækur eru merktar eftir erfiðleikastigum og þegar barn er farið að lesa einfaldan texta velur það sér bækur úr sínum erfiðleikaflokki.

Nemendum í 1. bekk er skipt upp þvert á árganginn í svokallaða þjálfunartíma þar sem kennari vinnur með hvern hóp fyrir sig og gefur nemendum viðeigandi þjálfunarverkefni. Þeir nemendur sem þurfa þjálfun í bókstafa- og hljóðþekkingu fá sérstakan þjálfunartíma hjá sérkennara í námsveri þar sem unnið er með undirstöðuþætti læsis, hljóðkerfis- og hljóðavitund og innlagðir bókstafir og hljóð þeirra eru æfðir markvisst í hverjum tíma. Unnið með fremsta hljóð, rím og atkvæði.

Herdís Rós Njálsdóttir, læsisfræðingur og sérkennari við Grunnskóla Vestmannaeyja.
Herdís Rós Njálsdóttir, læsisfræðingur og sérkennari við Grunnskóla Vestmannaeyja.

Næsti hópur fær áþekka þjálfun og námsvershópurinn. Í þeim hópi eru fleiri nemendur en ávallt haft að leiðarljósi að áskoranir séu miðað við færni.

Þriðji hópurinn vinnur einnig með hljóðkerfisvitund, parar saman há- og lágstafi, finnur fremsta hljóð í orði, æfir sig að lesa 3-4 bókstafa orð og vinnur markvisst með hlustunarskilning.

Fjórði hópurinn vinnur meira með ritun, skrifar stök orð og sögur með eigin stafsetningu og vinnur með orðaspil. Þeir nemendur vinna einnig með þjálfunarefnið Orðagull sem er frítt málörvunarefni fyrir börn eftir talmeinafræðingana Ásthildi B. Snorradóttur og Bjarteyju Sigurðardóttur.

Í fimmta hópnum eru börn sem farin eru að lesa (eru fulllæs) og þyngd verkefna eftir því. Áherslan hjá þessum nemendum er fyrst og fremst á, lestur, lesskilning og ritun.

Í janúar 2022 var fjöldi lesinna orða á mínútu ekki mældur hjá nemendum í 1. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja. Gengið er út frá einfalda lestrarlíkaninu sem segir lestur byggjast upp á umskráningu og málskilningi en ekki hraða. Til að meta árangur var útbúinn lesrammi þar sem lagt var mat á lestur nemenda og lesskilning.

Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri Rannsóknarsetursins Menntun og …
Svava Þ. Hjaltalín er grunnskólakennari og verkefnastjóri Rannsóknarsetursins Menntun og hugarfar við HÍ.

Til að styrkja mat kennarans voru lögð fyrir fjögur stöðumatsverkefni. Nemendur sem ekki brutu lestrarkóðann við skólabyrjun og eru á fyrsta þrepi lesrammans tóku aftur bókstafa og hljóðaprófið. Á næsta þrepi rammans lásu nemendur einföld orð og tengdu við mynd. Á því þriðja var kannað hvort nemandi væri fær um að lesa stuttar einfaldar setningar og tengja við myndir (þ.e. skilur nemandi það sem hann er að lesa) og á fjórða stigi, síðasta stigi lesrammans lesa nemendur stuttan lestexta og svarar spurningum úr textanum.

Nú liggja fyrir niðurstöður eftir mat á nemendum í janúar. Samkvæmt þeim niðurstöðum hafa 93,61% brotið lestrarkóðann, sem sagt lesa einföld orð með stórum bókstöfum (sept.: 58,3%) og 78,3% geta lesið setningar með stórum bókstöfum (sept.: 29,2%). Þegar þessi grein er rituð er verið að vinna úr niðurstöðum námsmatsins, endurmeta stöðuna og ákveða hvaða skref á að taka í framhaldinu. Sem sagt: stöðumat – eftirfylgni – markviss þjálfun – stöðumat – eftirfylgni.

Í okkar nálgun, LESTU, tölum við um þrjú stig (sjá mynd):

RAUTT (stig 1): Lögð áhersla á kennslu bókstafa og hljóða og þjálfun í að setja saman hljóð bókstafa (tvo og tvo, þrjá og þrjá) þannig að úr verður einföld orð og stuttar setningar. Markmið: Að nemendur nái að brjóta lestrarkóðann. Stöðumat: Bókstafa-hljóða prófið (Ofteland, Sigmundsson m.fl.).

GULT (stig 2): Lögð áhersla á þjálfun í lestri og vinnu með lesskilning. Unnið með einfalda texta og bækur með rétt erfiðleikastig. Þar að auki er lögð áhersla á ritun, að skrifa eigin texta. Markmið: Að nemendur verði fulllæsir. Stöðumat: LÆS ‚fulllæs‘ stöðumat (próf sem verður notað í lok 2. bekkjar) er í vinnslu og stefnt er á að slíkt stöðumat verði tilbúið vorið 2022. Ekki er útilokað að nemandi í fyrsta bekk taki fulllæs stöðuprófið sé færni hans komin á það stig.

GRÆNT (stig 3): Börn eru LÆS („fulllæs“). Áherslan er lögð á þjálfun á lestri og vinnu með lesskilning, ritun og framsögn (leikrit – leiklestur eða lestur með áherslum). Unnið er með erfiðari texta og bækur en á GULU stigi. Markmið: Að nemendur geti lesið reiprennandi ólíkar bækur og texta að eigin vali. Að nemendur verði einnig færir um að skrifa texta (skapandi skrif). Höfuðáherslur eru lagðar á textaskrif, lesskilning og framsögn. Til stendur að þróa matstæki fyrir textaskrif.

Samstarf við Bókasafn Vestmannaeyja er gífurlega mikilvægt fyrir Kveikjum neistann! nálgunina en þar hafa yfir 5.000 barna- og unglingabækur verið merktar eftir erfiðleikastigi og áhugasviði. Sú merking kemur sér einstaklega vel þar sem hægt er að benda börnum og foreldrum á að fara á bóksasafnið og sækja bækur á réttu erfiðleikastigi.

Eflum lestrarfærni og þar með mannauð. Foreldrar/forráðamenn og kennarar eru lykilfólk. Hlutverk foreldra í námi barna sinna er afar mikilvægt. Börn sem alast upp á heimilum þar sem bókalestur er algengur byrja fljótt að sýna stafrófinu áhuga, jafnvel strax á fyrstu þremur árum ævinnar (Pence og Justice). Bókalestur eykur orðaforða og lesskilning og er þáttur foreldra og annarra uppalenda langstærsti áhrifavaldurinn í orðaforða barna. Lesið fyrir börnin ykkar, notið samveruna og aðstæður í hversdagsleikanum til að ræða við börnin ykkar um daginn og veginn. Heimsækið vel búin bókasöfn landsins, þar er frábært starf í gangi þar sem börn og fullorðnir geta fundið lesefni við sitt hæfi.

Hermundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við NTNU í Þrándheimi og prófessor við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, MVS, Háskóla Íslands. hermundur@hi.is

Helga Sigrún er kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Vestmannaeyja og læsisfræðingur.

Herdís Rós er læsisfræðingur og sérkennari við Grunnskóla Vestmannaeyja.

Svava Þ. er grunnskólakennari og verkefnastjóri Rannsóknarsetursins Menntun og hugarfar við HÍ.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert