Heimsmynd öreindafræðinga storkað

Lárus Thorlacius, prófessor við Háskóla Íslands.
Lárus Thorlacius, prófessor við Háskóla Íslands.

Nýjar upplýsingar um massa W bóseinda gæti verið vísbedning um eitthvað alveg nýtt, að sögn Lárusar Thorlacius, prófessors við Háskóla Íslands. 

„Þetta mun ekki endilega leiða til vöruþróunar,“ segir Lárus glettinn. Uppgötvunin er þó til þess fallin að valda vissu uppnámi í fræðaheiminum enda er heimsmynd öreindafræðinga nú storkað með nýrri uppgötvun. 

Uppgötvunin var gerð af Fermilab í Illinois í Bandaríkjunum. Mælingar þar leiddu í ljós að massi W bóseinda reyndist sjö staðalfrávikum frá því sem talið var. 

Það sem er mest spennandi í þessu fyrir öreindafræðinga telur Lárus vera að þarna séu að koma fram vísbendingar um eitthvað sem sé ekki í samræmi við viðtekna líkanið og þar með gæti eitthvað nýtt komið í ljós. 

Vandi hve vel líkanið hefur virkað

Það hefur, að mati Lárusar, verið vandi í öreindafræðinni að hið viðtekna líkan hefur getað úrskýrt nánast allar mælingar. Líkanið sem um ræðir er þéttofið net af hugmyndum.

„Þetta viðtekna líkan er okkar besta mynd af því úr hverju efni er og hverjar eru grunnagnir efnisins og hvaða.“

Ef massi einnar agnar breytist, breytir það áhrifum sem hún hefur á aðrar agnir með víxlverkun. „Þannig verður sá skilningur sem þú taldir þig hafa á ýmsu öðru, síðri.“

Massi er mælikvarði á tregðu agna til að hreyfast og eftir því sem massinn er meiri, þeim mun meiri er tregðan.

Beta-geislavirkni

Bóseindir eru burðaragnir fyrir veiku víxlverkunina, sem er ein af fjórum grundvallarvíxlverkunum náttúrunnar. Hinar eru þyngdarvíxlverkunin, sterka víxlverkunin sem heldur kjörnunum saman og rafsegulvíxlverkunin.

W bóseindin kemur helst við sögu í beta-geislavirkni, að sögn Lárusar, en er mjög mikilvæg fyrir skilning okkar á heiminum. 

„Hún er til dæmis lykilatriði í því hvers vegna sólin lifir svo lengi, eða sé svona lengi að brenna sínu eldsneyti eins og hún verður í marga milljarða ára. Veika víxlverkunin hægir á öllu ferlinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert