Til að efla lestur þarf að vekja áhuga barna á bókum, eða tengja rétta bók við barnið til það það upplifi galdurinn, skrifa Hermundur Sigmundsson og Kári Bjarnason. Bókasafn Vestmannaeyja er þátttakandi í verkefninu Kveikjum neistann.
Bókasöfn eru auðlind, kyrrðarstaður í hröðum heimi nútímans. Bókasafn Vestmannaeyja er í samstarfi við verkefnið Kveikjum neistann, sem ætlað er að auka lestur og bæta líðan grunnskólabarna. Bókasafnið getur orðið að liði við að mæta þeim áskorunum sem við sem þjóðfélag glímum við hvað varðar læsi og allar þær alvarlegu afleiðingar sem vandi á því sviði hefur í för með sér.
Meðal þeirra áskorana sem við stöndum í sívaxandi mæli frammi fyrir eru þær staðreyndir að:
Málskilningi og orðaforða hrakar hjá börnum á leikskólaaldri og börnum og unglingum á grunnskólaaldri.
Sífellt fleiri teljast ekki geta lesið sér til gagns eftir 2. bekk.
Þeim fækkar sem lesa sér til gagns í lok grunnskólans, við 15 ára aldur (19% stúlkna og 34% drengja).
Ástæðan fyrir þessum vanda er einkum skortur á þjálfun og stóra áskorunin er: Hvernig aukum við bókalestur barna og unglinga, hvernig eflum við þjálfun í lestri og hvaða leiðir eru bestar til að glæða áhugann á lestri bóka?
Rannsóknir einstaklinga á borð við Kate Nation, prófessor við Oxford-háskóla, hafa í æ ríkari mæli beint athyglinni að mikilvægi þjálfunar í námi barna og unglinga sem bestu leiðarinnar til að auka og efla mál- og lesskilning. Kate hefur sýnt fram á hversu nauðsynlegt það er að bjóða ævinlega upp á sem fjölbreyttast úrval bóka sem geta vakið áhuga og vilja til að lesa meira. Að barnið hafi úr nógu efni að velja á hvaða stigi þroska og leshæfni sem það er statt á hverju sinni.
Af þeim sökum eru bókasöfn svo mikilvæg, bæði skólabókasöfnin sem nærstofnun, en ekki síður bæjarbókasöfnin um allt land með sitt fjölbreytta úrval bóka. Bókasafn Vestmannaeyja er í hópi stærstu bókasafna utan suðvesturhornsins og Akureyrar og þar hafa börn og ungmenni aðgang að yfir 12.000 bókum sem voru sérstaklega gefnar út fyrir þann markhóp. Auk þessa eru þúsundir bóka í þessu um 100.000 bóka safni sem henta börnum og ungmennum á ólíkum tímum.
Til þess að örva í sífellu bóklestur, eins og vísindin leggja svo ríka áherslu á, þurfa bókasöfnin að stíga stórhuga inn í það verkefni að glæða lestur grunnskólabarna með sínum fjölbreytta bókaforða og bókasöfnin verða að opna börnum og ekki síður foreldrum þeirra og forráðamönnum betur dyr sínar svo að ævintýraveröld bókarinnar nái sem best til barnsins.
En lestur á ekki að vera aðeins móttaka óvirks einstaklings, ef vel á að vera þarf lesturinn að virkja sköpunarmátt barnsins. Þannig hafa rannsóknir sýnt fram á að það er ekki síður mikilvægt að efla skapandi skrif hjá börnum og unglingum til að auka getuna til skilnings á því sem lesið er. Lestur er hugarrækt, við lestur skapast kúplingar innan ákveðinna heilasvæða og netverk af taugafrumum styrkist og þróast samhliða því að minni batnar. Því þurfa bókasöfnin einnig að bjóða upp á aðstöðu fyrir börnin til að vinna úr þeim hugsunum og hugmyndum sem bóklesturinn kveikir. Það er hið virka samtal barns og bókar sem skapar kjöraðstæður til þjálfunar, þar sem barnið les bók og vinnur úr þeim hugmyndum sem bókin vekur á sinn persónulega hátt. Á þann veg er líklegast að barnið sækist í að finna nýja bók sem talar til þess með nýjum áskorunum. Þar koma foreldrar og forráðamenn sterkir inn í samstarfi við bókasöfnin.
Í viðleitni til að virkja foreldra hefur Bókasafn Vestmannaeyja í samstarfi við Kveikjum neistann og Grunnskóla Vestmannaeyja haft Opið hús á laugardögum – þegar covid hefur leyft. Slíkur dagur var laugardaginn 23. október sl. þar sem Hermundur, Kári og Svava Þ. Hjaltalín kynntu hvað bæjarbókasafnið hefur upp á að bjóða öllum þeim sem vilja hjálpa börnum sínum við að auka lestrarfærni og lesskilning.
Starfsfólk bókasafnsins hafði lagt mikla vinnu og mikinn metnað í að útbúa barnadeild safnsins sem best úr garði og uppskar ríkulega þar sem fjöldi barna á öllum aldri mætti og skemmti sér hið besta þrátt fyrir að umgjörðin væri nokkuð í anda komandi hrekkjavöku.
Markmiðið var að sýna að bókasöfn eru hvorutveggja skemmtilegur og fræðandi fjölskyldustaður, þar sem hægt er að fara með aðstoð bókar og ímyndunaraflsins hvert sem er og þar sem bókin getur vaxið með barninu eftir því sem barnið sjálft dafnar. Slíkur ævintýrastaður er bókasafnið. Til að upplifa galdurinn þarf aðeins að tengja saman rétta bók við barnið – akkúrat bókina sem fangar það á þessum tíma og á þessu þroskaskeiði, dregur það til sín og sýnir því undralöndin, þar til barnið vex upp til nýrra bóka.
En það má ekki gleyma því að leikskólarnir eru fyrsta skólastigið. Því er það einstaklega ánægjulegt að leikskólar bæjarins, Kirkjugerði og Sóli, hafa lengi verið öflugir í því að nýta sér bókasafnið. Þannig settu starfsmenn Kirkjugerðis upp glæsilega sýningu í tilefni af Opnu húsi bókasafns í október sl. og kynntu þar listsköpun barnanna.
Með því að verk yngstu barnanna móti umgjörðina er verið að leggja áherslu á mikilvægi hinnar snemmbæru íhlutunar þar sem leikskólarnir tengja saman að lesa fyrir börnin og láta þau vinna á sínum eigin forsendum úr því sem þau hlusta á. Það verkefni er sameiginlegt átak leikskólans og foreldra.
Á Opnu húsi er því lögð megináhersla á að fá foreldrana til að koma með börnum sínum, sjá hvað yngstu börnin eru að gera með sköpunarkrafti sínum og síðan hvernig virkja má þann sköpunarkraft til að byrja gönguna löngu – að læra að lesa sér að gagni. Það verður að vera samfélagslegt verkefni okkar allra og Kveikjum neistann er tilraun til að sameina alla sem geta orðið að liði undir einu merki. Þannig næst best árangur. Hinn 21. október er planlagt málþing um Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum, þar sem árangur og reynsla af fyrsta ári verkefnis verður kynnt og rædd.
Hermundur er prófessor við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og við Menntun og hugarfar – rannsóknasetur við Háskóla Íslands og Kári er forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja.