Rannsókn AVT04 miðar vel áfram

Höfuðstöðvar Alvotech.
Höfuðstöðvar Alvotech. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lyfjafyrirtækið Alvotech segir jákvæðar niðurstöður hafa borist úr rannsókn á lyfjahvörfum AVT04, sem er líftæknilyfjahliðstæða á þróunarstigi við Stelara. AVT04 er ætlað til meðferðar við ónæmistengdum sjúkdómum á borð við psoriasis, liðagigt, skellupsoriasis, Chron's sjúkdómnum og sáraristilbólgu.

Stelara er eitt af mest seldu líftæknilyfjum heims. Á síðasta ári voru áætlaðar tekjur af því tæpar 1.200 milljarðar króna, eða jafnvirði 9 milljarða Bandaríkjadala.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, kveðst ánægður með framgang verkefna fyrirtækisins á sviði líftæknilyfjahliðstæða. Hann segir góða árangurinn staðfesta skilvirkni þeirrar sérhæfðu aðstöðu, til þróunar og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða, sem búið er að byggja upp í Alvotech.

Niðurstöður staðfestingarrannsóknar kynntar fyrir lok júní

„Í rannsókninni (AVT04-GL-101) voru borin saman lyfjahvörf í þremur hópum sem fengu 45 mg/0.5mL skammt undir húð af AVT04 eða Stelara® frá bandarískum og evrópskum mörkuðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lyfjahvörf, öryggi, þolanleiki og ónæmingarverkun eru jafngild fyrir AVT04 og samaburðarlyfið,“ segir í tilkynningu Alvotech.

Joseph McClellan, þróunarstjóri Alvotech, segist gera ráð fyrir því að geta kynnt niðurstöður úr staðfestingarrannsókn Alvotech á öryggi og virkni AVT04 fyrir lok annars ársfjórðungs þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert