Meira en fjórtán prósent mannkyns hafa fengið Lyme-sjúkdóminn, að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknar sem birtist síðastliðinn þriðjudag í ritinu BMJ Global Health, en hún tók mið af 89 rannsóknum frá öllum heimshornum.
Hæsta tíðni sjúkdómsins er í Mið-Evrópu. Þar hafa tuttugu prósent íbúa smitast af honum. Stærsti hópur smitaðra eru karlmenn yfir fimmtugt á dreifbýlli svæðum.
Lyme-sjúkdómur er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Borrelia burgdorferi. Bakterían berst í menn eftir bit sýkts skógarmítils þegar hann nærist á blóði. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því auðveldara er að meðhöndla hann og veldur hann sjaldan dauða.
Fyrsta einkenni Lyme-sjúkdómsins getur verið húðroði sem dreifir sér í hring út frá bitinu.Yfirleitt myndast roðinn á fyrstu 4 vikum eftir bit en getur tekið allt að 3 mánuðum að koma fram.
Þá fylgja honum flensueinkenni á borð við hita, hroll, slappleika, höfuðverk, vöðva-og beinverk og þreytu. Þessi einkenni geta varað vikum saman.
Tíðni Lyme-smita hefur tvöfaldast á síðustu tólf árum. Ástæður fyrir því kunna að vera lengri og þurrari sumur vegna loftslagsbreyinga, flutningur dýra og síaukið samneyti við gæludýr.