Fyrsta myndin hefur verið birt úr Webb-geimsjónaukanum. Er þetta söguleg stund, að sögn Sævars Helga Bragasonar, eða Stjörnu-Sævars eins og hann er betur þekktur.
Um er að ræða skýrustu mynd sem tekin hefur verið af daufustu fyrirbærum sem sést hafa í alheiminum.
„Guuuuullfallegar vetrarbrautir, magnaðar upp af þyngdarlinsu! Björtu gulhvítu blettirnir í miðjunni er þyrping sporvöluþoka í 4,6 milljarða ljósára fjarlægð sem hefur svo mikinn massa að hún verkar eins og linsa sem magnar upp ljós frá enn fjarlægari vetrarbrautum (bogadregnar),“ skrifar Stjörnu-Sævar í færslu á Facebook síðu sinni.
Hann telur nýtt skeið í stjarnvísindum hafið.
Á morgun munu birtast myndir af Kjalarþokunni, en það er stjörnuþoka í rúmlega 7 þúsund ljósára fjarlægð. Þá verða einnig teknar myndir af Suðurhringþokunni og fjarreikisstjörnu sem líkist Júpíter.
Í athugasemdum undir færslu sinni birtir Stjörnu-Sævar brot úr myndinni og skrifar:
„Hugsið ykkur! Þarna er þyrilþoka svipuð þeirri sem við búum í. Kannski býr einhver þarna? Stjörnur á himninum þeirra jafn strjálar og á næturhimninum okkar. Og útsýnið þaðan til okkar er svipað því sem við sjáum. Þau sjá okkur eins og við litum út fyrir milljörðum ára.“