Eftir að hafa birt skýrustu myndina til þessa úr fjarlægustu kimum alheimsins er meira efni væntanlegt síðar í dag frá Webb-geimsjónaukanum. Myndin sem var birt á mánudag hefur vakið mikla athygli víða um heim. Hún sýnir alheiminn eins og hann leit út fyrir 13 milljörðum ára, að sögn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA.
Næstu myndir munu upplýsa um andrúmsloft fjarlægrar gasplánetu, svæði þar sem stjörnur myndast, vetrarbrauta-„kvintett" og gasský í kringum deyjandi stjörnu.
Myndirnar verða birtar klukkan 14.30 að íslenskum tíma og verður viðburðinum streymt beint frá geimferðastöð NASA, rétt fyrir utan bandarísku höfuðborgina Washington.
Webb-geimsjónaukanum var skotið á loft frá Frönsku-Gíneu í desember í fyrra. Hann er á sporbaug um sólu í 1,6 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu.
Heildarkostnaður verkefnisins nemur 10 milljörðum dollara, sem gerir það eitt það dýrasta til þessa á sviði vísinda.
Stærsti spegill Webb er 6,5 metrar í þvermál og er búinn til úr 18 gullhúðuðum speglabrotum. Rétt eins og þegar fólk heldur á farsíma til að taka ljósmynd er mikilvægt að þetta mannvirki sé eins stöðugt og mögulegt er til að það nái sem bestum myndum.
Geimferðastofnun Bandaríkjanna reiknar með því að eldsneyti sjónaukans muni duga næstu 20 árin úti í geimnum.