Hljómtæki: Ekki aftur snúið

Mu-so er stílhreint tæki þar sem búið er að setja …
Mu-so er stílhreint tæki þar sem búið er að setja allt í einn pakka. Hljómgæðin eru fyrsta flokks. Naim

Greinin birtist upphaflega í lífstílsdálkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn 27. júlí. 

Fyrr í sumar átti ég áhugavert samtal við einn af fróðustu hljómtækjasölumönnum Íslands. Hann benti mér á að hjá öðrum Evrópuþjóðum leggur fólk mun meira upp úr því að fjárfesta í vönduðum hljómtækjum og að á meginlandinu þyki eftirsóknarvert að gera heimilið að griðastað, þar sem má njóta tónlistar í bestu mögulegu gæðum.

Sagði hann að það skyti skökku við að hjá vel stæðum íslenskum fjölskyldum þætti fullkomlega eðlilegt að eyða fúlgum fjár í risastórt og vandað sjónvarp og kaupa hönnunarhúsgögn fyrir margar milljónir, en láta nægja að hafa lítinn og ódýran blátannarhátalara einhvers staðar úti í horni til að spila tónlist.

Þetta fékk mig til að hugsa vel og vandlega um hvernig ég neyti sjálfur tónlistar og hvort ég væri kannski að fara á mis við dýrmætan hversdagslúxus með því að leggja ekkert sérstaklega mikið upp úr valinu á hátölurum og heyrnartólum.

Ég veit upp á mig sökina, því ég hef gert mér að góðu að nota agalega ómerkilega hátalara og heyrnartól.

Naumhyggja einkennir hönnun Mu-so. Stór upplýstur stjórntakki situr efst á …
Naumhyggja einkennir hönnun Mu-so. Stór upplýstur stjórntakki situr efst á tækinu og bylgjumynstur er í grillinu.

Allt sem þarf í einum pakka

Ég sökkti mér ofan í rannsóknir, hringdi nokkur símtöl og sendi nokkra tölvupósta, og með aðstoð Hljóðfærahússins tókst mér að lokum að fá að láni stórmerkileg hljómflutningstæki frá breska framleiðandanum Naim.

Til að gera langa sögu stutta, þá held ég að ekki verði aftur snúið. Þegar ég settist niður fyrir framan alvörugræjur og byrjaði að hlusta á uppáhaldslögin, opnuðust mér nýjar víddir.

Í hálfa öld hefur Naim framleitt hágæðahljómflutningstæki en fyrirtækið sameinaðist franska hátalara- og heyrnartólasmiðnum Focal árið 2011. Árið 2014 kynnti Naim Mu-so til sögunnar en um er að ræða tæki þar sem búið er að setja allt í einn pakka. Ekki þarf annað en að tengja tækið við rafmagnsinnstungu til að geta byrjað að njóta tónlistar. Var tækið uppfært árið 2019 og bættist þá jafnframt við minni, kubbslaga útgáfa af hátalaranum; Mu-so Qb.

Naim varð fyrir valinu í þessari fyrstu hljómtækjatilraun minni fyrir ViðskiptaMoggann, einmitt vegna þess að tækið hefur fengið ákaflega góða dóma og þykir bera af í hópi vönduðustu „all-in-one“ hljómtækjanna á markaðinum.

Mu-so er líka heppilegt tæki fyrir byrjendur eins og mig, enda væri hinn valkosturinn að púsla saman hátölurum og mögnurum, reyna að skilja alls konar flókin tæknileg hugtök, leggja heilmikla vinnu í að tengja snúrur á réttan stað og fínstilla búnaðinn til að fá rétta hljóminn. Það eina sem ég þurfti að gera með Mu-so var að hlaða forriti niður í símann minn, tengja hljómtækin við þráðlausa netið á heimilinu, og byrja að streyma og njóta. Ekki þarf að stilla tækið að öðru leyti, en ef þess þarf má breyta hljóminum örlítið með tilliti til þess hvort að Mu-so situr nálægt vegg eða nálægt horni.

Að gleyma sér í tónlist

Það er mjög sérstök tilfinning að heyra uppáhaldstónlistina í fyrsta sinn í mestu mögulegu gæðum. Snjallsímaforrit Naim er beintengt við Tidal sem streymir tónlist í hámarksgæðum, svo að ótal smáatriði koma í ljós og tónverkin fá nýja dýpt og skerpu. Ég stillti tækinu fyrst upp á eldhúsborðinu, settist beint fyrir framan hátalarann og var eins og límdur við stólinn þegar ég hlustaði á „A Day in the Life“ og fannst ég nánast sitja í upptökuverinu með Bítlunum. Klassísk rokklög eins og „Money for Nothing“ virðast eins og gerð fyrir þessi hljómtæki og sömuleiðis raf- og hipphopp-tónlist eins og „Fils de joie“, nýjasta meistaraverk belgíska undrabarnsins Stromae. Mu-so fer létt með mýkt og næmni en á ekki heldur í nokkrum vanda með t.d. harðan þýskan málm, eins og klassíkina „Du Hast“ þeirra félaga í Rammstein, sem framkallaði hjá mér langvarandi gæsahúð í flutningi Mu-so.

Mu-so gerir klassískum verkum líka góð skil og hljóðupplifunin eins og að sitja á besta stað í Eldborg. Ég fann upptöku af La Traviata með þeim Önnu Netrebko og Rolando Villazón í aðalhlutverkum og sisvona var ég búinn að hlusta á óperuna frá upphafi til enda, dolfallinn yfir flutningnum.

Það var helst í hipp-hopp/rapp lögum með mjög ýktan bassa að ég hefði viljað meiri kraft á neðsta tíðnisviðinu á venjulegum hljómstyrk. „Drop It Like It‘s Hot“ með ljúflingnum Snoop Dogg eða rússneski smellurinn „Moía gólova víntom“ frá Kostromin eru með bassatakt sem lætur kviðarholið titra og eru sum hljómtæki og heyrnartól stillt sérstaklega til að leyfa þessum öfga-bassa að njóta sín, iðulega á kostnað annarra tíðnisviða. Til að ná fram bassastyrknum í þessum lögum, þurfti ég að hækka í græjunum en varð um leið órólegur því stundum var eins og þungir dynkirnir hljómuðu eins og öskuillur nágranni væri að berja á dyrnar hjá mér.

Er kannski ágætt að vara þá við sem búa í fjölbýli að strax á 30% styrk var hljómur Mu-so nógu öflugur til að berast langt út á götu. Að stilla hljóðstyrkinn á meira en 50% er ávísun á að fá mjög kaldar viðtökur á næsta húsfélagsfundi, enda ekkert grín að hafa úr 450 wöttum að spila.

Íslendingar virðast enn á eftir íbúum á meginlandi Evrópu þegar …
Íslendingar virðast enn á eftir íbúum á meginlandi Evrópu þegar kemur að því að fjárfesta í vönduðum hljómtækjum sem bjóða upp á fyrsta flokks tónlistarupplifun.

Massíf en meðfærileg

Stærð Mu-so gerir það að verkum að sitja þarf tiltölulega nálægt tækinu til að fá fullkomlega þrívíðan hljóm, en það er ekki miklu fórnað þó setið sé fjær hátalaranum. Á móti kemur að þótt tækið sé þungt er það meðfærilegt og ekki erfitt að bera t.d. úr stofunni út á pall, eða inn í svefnherbergi til að njóta tónlistar á nýjum stað. Þá má dreifa mörgum Mu-so hljómtækjum um heimilið og láta þau tala saman, og spila sömu tónlistina í öllum herbergjum. Vitaskuld má líka tengja Mu-so við sjónvarpið með HDMI-kapli og nota eins og hljóðstöng. Tækið er með öllum helstu innstungum og tengimöguleikum og hægt að spila tónlistina hvort heldur er af plötuspilara, USB-lykli, yfir blátannartengingu, gegnum AirPlay eða Chromecast.

Loks verður að hrósa Mu-so fyrir smekklega hönnun: Græjan er stílhrein, þétt og gegnheil án þess að vera sneydd persónuleika. Hún stelur ekki senunni en er heldur ekki lýti á fallega innréttaðri stofu. Efst á tækinu situr einn stór stjórntakki en langþægilegast er að nota snjallforrit Naim til að stýra tónlistarflutningnum. Þykkur botn úr plexígleri hleypir ljósi undir tækið, svo það virðist svífa í lausu lofti og stillanleg díóðuljós í stjórntakkanum og á botni tækisins setja punktinn yfir i-ið. Á grillinu, sem fæst í nokkrum litum, er bylgjumynstur sem brýtur upp formið en bylgjurnar sjást ekki nema þegar horft er á tækið frá hlið.

Mu-so hljómtækin kosta rétt tæpar 260.000 kr. hjá Hljóðfærahúsinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert