„Við höfum lagt mikla áherslu á að vinna með gögn eða tölur í því hvernig við skipuleggjum okkur og höfum náð miklum árangri í því bæði í baráttunni við Covid og í venjulegum daglegum rekstri og rannsóknum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Karólínska-sjúkrahússins í Svíþjóð, í samtali við mbl.is
Greint var frá því í dag að Karólínska væri í níunda sæti, efst Evrópulanda, á lista yfir 300 spítala sem eru leiðandi á sviði svokallaðrar snjalltækni. Tímaritið Newsweek birti listann.
„Við erum líka að reyna að komast að því hvernig við nýtum nýjustu tækni í venjulega meðhöndlun á sjúklingum og okkur hefur gengið mjög vel í því undanfarin tvö eða þrjú ár, sem er kannski lykillinn á bak við þetta,“ bætir Björn við.
Á vefsíðu Newsweek segir að snjallspítalar noti nýjustu tækni til að endurhugsa og skilgreina upp á nýtt umönnun og upplýsingamiðlun í heilbrigðiskerfinu með notkun sýndarumönnunar, stafrænnar myndatækni, gervigreindar og vélmennafræði.
Fram kemur á listanum sem Newsweek birti að Karólínska standi framarlega í flokki hvað varðar notkun gervigreindar, en að sögn Björns er m.a. notast við hana til að vinna hraðar úr upplýsingum.
„Markmiðið með notkun gervigreindar er að vinna hraðar úr upplýsingum og fá betri spálíkön hvort sem varðar greiningar á einhverju, eða hvernig maður vill nota greiningar eða spár í almenna vinnu á spítölum og í sérstökum sjúkdómum.“
„Við notuðum mikið gervigreind í Covid-faraldrinum við að skipuleggja hvað við þyrftum til dæmis mörg rúm, hvort sem var á gjörgæslu eða annars staðar og ég held það hafi vakið mesta athygli á gervigreindarvinnunni hjá okkur.“
Þá segir Björn að það vanti alltaf meira og meira starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og að nýjasta tækni geti létt álaginu á spítölum með því að hafa eftirlit í heimahúsum, en Karólínska er með þrjú verkefni í gangi í dag (sem verða sameinað í eitt), í tengslum við sýndarumönnun (e. virtual care).
„Við þurfum að þróast þannig í framtíðinni að það verði ekki til menntað starfsfólk til að sjá um alla eins og við gerum í dag,“ segir Björn. „Við erum að vinna náið með nokkrum aðilum til að finna út hvað sjúklingar þurfi að vera á spítölum, ef hægt er að hafa eftirlit í heimahúsum og þarfagreiningu í kringum það.“
Spurður út í fjárlagafrumvarpið í ár sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á mánudag sagðist Björn ekki hafa haft tíma til að kynna sér það enn sem komið er, en hann situr einnig í stjórn Landspítalans.
„Ég hitti Runólf og Frey frá framkvæmdastjórninni um helgina og eftir helgi. Svo förum við almennilega í gegnum þetta á stjórnarfundi hjá okkur á föstudeginum í næstu viku.“