Bandaríska geimferðarstofnunin NASA hyggst í dag láta geimflaug fljúga á smástirni til þess að breyta sporbaugi loftsteinsins. Þetta er gert í tilraunaskyni til að ganga úr skugga um það hvort hægt sé að breyta stefnu loftsteins sem myndi annars lenda á jörðinni, hugsanlega með hrikalegum afleiðingum.
Þetta er í fyrsta skipti sem þetta er reynt. Verkefni af þessu tagi hafa eingöngu verið vísindaskáldskapur hingað til, en kvikmyndirnar Armageddon og Don‘t Look Up fjalla einmitt um loftsteinaógn af þessu tagi.
Geimskipinu var skotið á loft í Kaliforníu í Bandaríkjunum í nóvember í fyrra. Það nálgast nú skotmark sitt og ef allt gengur samkvæmt áætlun rekst það á smástirnið klukkan 23.14 í kvöld, á um það bil 22.500 km/klst hraða.
Geimskipið er á stærð við bifreið en smástirnið Dimorphos er um 160 metrar á lengd.
Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í kvöld í beinu streymi á heimasíðu NASA.
Kl. 23:14 í kvöld rekst DART gervitunglið á smástirnið Dímorfos á 23 þúsund km hraða á klst (6,6 km/s). Við áreksturinn hnikast sporbraut Dímorfos um móðurhnöttinn Dídýmos lítillega til og verður breytingin mæld með sjónaukum á Jörðinni næstu mánuði. Mynd: NASA/Johns Hopkins APL pic.twitter.com/zxNuRQwZCY
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) September 26, 2022