Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) birti í dag nýja mynd úr James Webb-geimsjónaukanum, af nýmynduðum stjörnum, sem hafa verið kallaðar Stólpar sköpunarinnar.
NASA hóf að birta nýjar myndir frá Webb í sumar, sem eru þær skýrustu sem birst hafa úr fjarlægustu kimum alheimsins til þessa. Sýna þær heiminn eins og hann leit út fyrir 13 milljörðum síðan.
Stólpar sköpunarinnar eru staðsettir í miðju Arnarþokunnar svokölluðu, sem er í um 7.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Stjörnusvermurinn í þokunni er líklega um 5,5 milljón ára gamall og stjörnumyndun á sér enn stað í Arnarþokunni líkt og útskýrt er á vef Stjörnuvefsins. Þar er lögun þokunnar líkt við örn og klær hans.
Arnarþokan varð heimsfræg árið 1995 þegar sjónaukinn Hubble myndaði Stólpa sköpunarinnar. Í stöplunum er gasið nógu þétt til þess að falla saman undan eigin þunga og mynda nýjar stjörnur, eins og útskýrt er á Stjörnufræðivefnum. Gas- og rykstöplarnir eru nokkur ljósár að lengd. Þeir mótast, lýsast upp og tortímast allt í senn vegna sterkrar útfjólublárrar geislunnar sem stjórar stjörnur í stjörnuþyrpingunni við hliðina, NGC 6611, gefa frá sér.
Arnarþokan sést naumlega frá Íslandi og er alltaf lágt á lofti. Stólparnir sjást með litlum áhugamannasjónaugum en enn betur í gegnum sjónauka 8 tommum að stærð eða stærri.