Tæknirisinn Google hefur átt betri daga en þegar fyrirtækið kynnti nýja gervigreindartækni, yrkjan Bard, í vikunni. Mistök leiddu til þess að verð á hlutabréfum í Alpha, móðurfélagi Google, skrapp saman um 7% í gær og lækkaði virði fyrirtækisins um 100 milljarða dollara, eða sem nemur 14.000 milljörðum kr.
Bard var spurður hvað hann ætti að segja við níu ára gamalt barn um uppgötvanir James Webb-geimsjónaukans. Fram kom í svarinu að sjónaukinn hefði verið sá fyrsti sem tók ljósmyndir af plánetu sem er fyrir utan okkar sólkerfi.
Það er þó ekki alls kostar rétt því þann heiður á European Very Large-sjónaukinn og það gerðist árið 2004. Stjörnufræðingar voru fljótir að taka eftir þessari villu og leiðrétta hana þegar í stað á Twitter.
„Hvers vegna voru staðreyndirnar ekki kannaðar áður en þessu var deilt,“ spurði Chris Harrison við háskólann í Newcaslte undir færslunni sem Google birti á Twitter.
Fjárfestar voru auk þess ekki hrifnir af þessari gervigreindarkynningu Google, sem fyrr segir í umfjöllun breska útvarpsins.
Í fyrra kynnti Microsoft-tæknifyrirtækið kynnti ChatGPT-gervigreindarhugbúnaðinn sem hefur notið mikilla vinsælda, en forritið getur gert ótrúlegustu hluti, s.s. að semja lagatexta, svara spurningum eða semja ritgerðir. Síðan þá hefur Google verið undir pressu að bregðast við þessari samkeppni.
Þá greindi Microsoft frá því í þessari viku að ný útgáfa af Bing-leitarvélinni muni nota ChatGPT-tæknina, og að hún verði enn betri en sú sem núna er hægt að nota. Bing hefur verið ljósárum á eftir Google þegar það kemur að vinsældum leitarvéla.