Bráðnun hraðari og fyrr á ferð

Askja í forgrunni með Vatnajökul í bakgrunni. Jarðvísindamenn fylgjast grannt …
Askja í forgrunni með Vatnajökul í bakgrunni. Jarðvísindamenn fylgjast grannt með gangi mála í Öskju þar sem ís hefur bráðnað hratt síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú erum við að fara yfir gögnin sem við fengum úr flugi Landhelgisgæslunnar í gær, það eru ratsjárgögn, hitagögn og fleira,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um gang mála í og við Öskjuvatn.

Nefnir Ingibjörg sérstaklega þekkt jarðhitasvæði vestarlega í vatninu þar sem litlar vakir séu á ísnum í hefðbundnu árferði, en nú sé allur vestari hluti vatnsins auður. Það svæði hafi verið gaumgæft sérstaklega með hitamyndavélum í flugi gærdagsins. „Það gufaði mjög upp úr þessu svæði og lá strókurinn út yfir vatnið,“ segir hún.

Segir Ingibjörg enn fremur að bráðnun íss á vatninu gerist nú hvort tveggja mun hraðar og fyrr á árinu en vaninn sé. Áfram verði fylgst með þróuninni með tiltækum ráðum, meðal annars hver þróunin verði á vatninu með tilliti til yfirborðshita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert