„Við allar þessar tæknibyltingar hefur svo sem komið upp sama orðræðan en reynslan hefur heilt yfir verið sú að þetta hefur aukið framleiðni og losað forða til þess að sinna öðru.“
Þetta sagði Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi og stofnandi máltæknifyrirtækisins Miðeindar, um hvað undanfarnar framfarir í gervigreind gætu haft í för með sér, þegar hann mætti í Dagmál, frétta- og menningarþátt Morgunblaðsins.
Var Vilhjálmur mættur ásamt Kötlu Ásgeirsdóttur, viðskiptaþróunarstjóra Miðeindar, í Dagmál til þess að ræða gervigreind, máltækni og hlutverk Íslands í því öllu saman, en Miðeind vinnur með OpenAI við að fínprófa GPT-risamállíkanið í íslenskri tungu.
Taldi Vilhjálmur upp þær fjölmörgu byltingar sem hann hafði á sínum tæpu 30 árum í tæknibransanum, á borð við fyrstu vinnutölvurnar, internetið og loks snjallsímana.
„Gervigreindin er að mörgu leyti afskaplega stór bylting og kannski ekkert minni en þessar hinar. Þetta verður svona „magnari“ á mannshugann og verður vonandi notað til góðs.“
Katla tók undir og kvaðst hafa velt því mikið fyrir sér.
„Þetta getur bara orðið til þess að stytta vinnuvikuna. Ef að framleiðni eykst það mikið, þá ætti það alveg að geta komið til greina.“
Brot úr þættinum má sjá hér efst í fréttinni. Þáttinn í heild sinni má finna hér.