Stórt tækifæri til að grípa gæsina

Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi og stofnandi Miðeindar, telur að rík tækifæri séu að myndast fyrir Ísland á sviði gervigreindar. Mikilvægt sé að við nýtum forskot sem kann að myndast nú þegar GPT-4 komi til með að læra betri íslensku.

Vilhjálmur mætti í Dagmál ásamt Kötlu Ásgeirsdóttur, viðskiptaþróunarstjóra Miðeindar, en nýverið var ljóstrað um samstarfsverkefni fyrirtækisins með OpenAI, við gerð GPT-4 þar sem ný útgáfa spjallmennisins er fínþjálfað á íslensku.

Vilhjálmur sagði tækifæri til þess að hamra járnið meðan það …
Vilhjálmur sagði tækifæri til þess að hamra járnið meðan það væri heitt. mbl.is/Hallur Már

„Það skiptir mjög miklu máli að þessi ávinningur og þessi framleiðniaukning geti átt sér stað líka á íslensku, fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag,“ 

Miklu máli skipti að Ísland geti tekið virkan þátt í gervigreindarbyltingunni og nú sé óvænt komin upp sú staða að við getum verið á undan öðrum löndum.

„Ég held að það sé alveg tækifæri til þess að hamra járnið meðan það er heitt, og grípa gæsina meðan hún gefst.“

Íslenskan verði ekki eftir í sandinum

Kvað Vilhjálmur Ísland að mörgu leyti staðið sig vel þegar kemur tækninýjungum í gegnum tíðina. Benti hann á hraða ljósleiðaravæðingu máli sínu til stuðnings.

„Við þurfum að passa að það sama muni gilda á þessu sviði – hvað varðar ávinning af gervigreind. Að sitja ekki eftir heldur taka smá hlutverk ísbrjótsins líka.“

Katla tók undir með Vilhjálmi:

„Já, svo eru Íslendingar það nýjungagjarnir að ég held að við myndum aldrei í rauninni sitja eftir. Ég held að við myndum frekar bara skilja íslenskuna eftir.“

Til þess sé einmitt máltækniáætlun stjórnvalda og samstarfsverkefnið með OpenAI

„Að koma í veg fyrir það að íslenskan siti eftir og við höldum áfram einhvers staðar án hennar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert