Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi og stofnandi Miðeindar, telur að rík tækifæri séu að myndast fyrir Ísland á sviði gervigreindar. Mikilvægt sé að við nýtum forskot sem kann að myndast nú þegar GPT-4 komi til með að læra betri íslensku.
Vilhjálmur mætti í Dagmál ásamt Kötlu Ásgeirsdóttur, viðskiptaþróunarstjóra Miðeindar, en nýverið var ljóstrað um samstarfsverkefni fyrirtækisins með OpenAI, við gerð GPT-4 þar sem ný útgáfa spjallmennisins er fínþjálfað á íslensku.
„Það skiptir mjög miklu máli að þessi ávinningur og þessi framleiðniaukning geti átt sér stað líka á íslensku, fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag,“
Miklu máli skipti að Ísland geti tekið virkan þátt í gervigreindarbyltingunni og nú sé óvænt komin upp sú staða að við getum verið á undan öðrum löndum.
„Ég held að það sé alveg tækifæri til þess að hamra járnið meðan það er heitt, og grípa gæsina meðan hún gefst.“
Kvað Vilhjálmur Ísland að mörgu leyti staðið sig vel þegar kemur tækninýjungum í gegnum tíðina. Benti hann á hraða ljósleiðaravæðingu máli sínu til stuðnings.
„Við þurfum að passa að það sama muni gilda á þessu sviði – hvað varðar ávinning af gervigreind. Að sitja ekki eftir heldur taka smá hlutverk ísbrjótsins líka.“
Katla tók undir með Vilhjálmi:
„Já, svo eru Íslendingar það nýjungagjarnir að ég held að við myndum aldrei í rauninni sitja eftir. Ég held að við myndum frekar bara skilja íslenskuna eftir.“
Til þess sé einmitt máltækniáætlun stjórnvalda og samstarfsverkefnið með OpenAI
„Að koma í veg fyrir það að íslenskan siti eftir og við höldum áfram einhvers staðar án hennar.“