Tilraunaskoti bandaríska geimtæknifyrirtækisins Space X hefur verið frestað.
Um er að ræða tilraunaskot nýrrar geimflaugar, þeirrar stærstu sem smíðuð hefur verið, sem hönnuð er til að ferja geimfara til tunglsins, reikistjörnunnar Mars og jafnvel enn fjær jörðu.
Flaugin átti að taka á loft klukkan 13.20 að íslenskum tíma, en aðeins fáeinum mínútum áður tilkynnti auðkýfingurinn Elon Musk, stofnandi fyrirtækisins, að skotinu hefði verið frestað.
Fulltrúar SpaceX segja þrýstingsvanda á fyrsta stigi geimskotsins hafa gert þetta að verkum. Verður því frestað um að minnsta kosti tvo sólarhringa.
Áður hafði hann sagt það ljóst að margt gæti farið úrskeiðis.
„Þetta er mjög áhættusamt flug,“ sagði hann á streymisviðburði sem haldinn var á Twitter í gær.
„Þetta er fyrsta skot mjög flókinnar, risastórrar eldflaugar. Hún getur mistekist á milljón vegu,“ bætti hann við, en flaugin nefnist Starship.
„Við ætlum að fara mjög varlega og ef við sjáum eitthvað sem vekur með okkur áhyggjur, þá munum við slá þessu á frest.“
Musk kvaðst þannig vilja stilla væntingum í hóf.
„Því morgundagurinn verður líklega ekki árangursríkur, ef við skilgreinum árangur sem að ná sporbraut.“