Snjalltækjum af öllu mögulegu tagi sem tengd eru netinu fjölgar í sífellu en þau eru iðulega illa varin eða jafnvel galopin og berskjölduð fyrir netaðgangi annarra og tölvuárásum. Þór Jes Þórisson, formaður Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni, segir í samtali við Morgunblaðið brýnt að taka á þeim gloppum sem eru á öryggi hlutanetanna svonefndu og vekja almenning til vitundar um þessi mál. Framleiðendur reyni að hafa þessi snjalltæki sem ódýrust og þá mæti öryggisþættirnir afgangi.
„Menn eru farnir að passa símana sína en eru grunlausari gagnvart þessu. Það eru alls konar hlutir sem menn geta brotist inn á, það geta verið snjallúr eða snjallsjónvörp eða hvað annað en oft fer það hljótt, því þeir sem fyrir þessu verða vekja ekki endilega athygli á því,“ segir hann. „Við erum að stuðla að því að menn hafi vitnskju um þetta. Árið 2021 gaf Staðlaráð út 13 leiðbeiningar um öruggari notkun tækja á hlutanetinu,“ segir hann.
Haldin verður norræn vefráðstefna um öryggi hlutaneta á neytendamarkaði 3. maí næstkomandi sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Fjarskiptastofa og Staðlaráð standa að, þar sem m.a. breskir og finnskir fyrirlesarar flytja erindi. Í grein um þessar áskoranir og leiðir til úrbóta sem Þór hefur skrifað af þessu tilefni segir hann fjölmörg dæmi hafa komið upp sem snúa að því hversu auðvelt hafi verið að brjótast inn í t.d. barnasnjallúr, öryggismyndavélar á heimilum og ýmsan nettengdan snjallbúnað á heimilum. „Hlutanetsbúnaður hefur þá verið tekinn yfir, eigendum til armæðu og í sumum tilfellum til tjóns,“ skrifar hann.
Reynslan erlendis af öryggisleiðbeiningum um stafræn tæki og búnað sem tengd eru netinu hefur ekki verið talin nægilega góð, að sögn hans, enda sé fyrirtækjum í sjálfsvald sett hvort þau fara eftir þeim.