Sífellt líklegra þykir að veðurfyrirbrigðið El Niño myndist á næstu mánuðum. Það hefði í för með sér hærra hitastig á heimsvísu og mögulega ný hitamet.
Sameinuðu þjóðirnar vara við þessu í dag.
Alþjóðaveðurfræðistofnun SÞ metur það nú sem svo að 60% líkur séu á að El Niño myndist fyrir lok júlí, og 80% líkur á að það verði fyrir septemberlok.
„Þetta mun breyta veðri og loftslagsmynstri á heimsvísu,“ sagði Wilfran Moufoma Okia, yfirmaður spádeildar stofnunarinnar, við blaðamenn í Genf í morgun.
El Niño er náttúrulegt veðurfyrirbrigði sem skilgreint er á vísindavef HÍ sem hér segir: Margra mánaða langt ástand með víðáttumiklum jákvæðum sjávarhitafrávikum í austanverðu Kyrrahafi.
Fyrirbrigðið er yfirleitt tengt við hækkandi hita á heimsvísu, ásamt þurrki á sumum svæðum og miklu regni annars staðar. Varð þess síðast vart á árunum 2018 og 2019.
Frá árinu 2020 hefur andstæða El Niño þó verið ríkjandi, La Niña nefnist hún, og það óvenju lengi. Hún vék frá fyrr á þessu ári, og síðan hefur verið ákveðið millibilsástand.
Síðustu átta ár eru þau heitustu sem nokkurn tíma hafa mælst, og það þrátt fyrir að kælingaráhrif La Niña hafi varað í nærri helming þess tíma. Án þess er talið að hlýnunin hefði verið mun meiri.
La Niña „virkaði sem tímabundinn hemill á hækkun hitastigs á heimsvísu,“ segir Petteri Taalas, yfirmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, í yfirlýsingu.
„Heimurinn ætti að búa sig undir myndun El Niño,“ bætir hann við.
Því muni mjög líklega fylgja nýr toppur í hnattrænni hlýnun og auka líkurnar á að hitamet verði slegin.
Alls óvíst þykir hversu sterkt eða hversu lengi þetta fyrirbrigði verði að þessu sinni. Síðasta El Niño var talið mjög veikt en það sem kom á undan, á árunum 2014 til 2016, þykir eitt það sterkasta sem mælst hefur, með alvarlegum afleiðingum.
Stofnunin bendir á að árið 2016 hafi verið hlýjasta ár sögunnar, vegna sterks El Niño annars vegar og hins vegar sökum hlýnunar af mannavöldum vegna gróðurhúsalofttegunda.
Þar sem áhrifa El Niño á hitastig heimsins gætir helst árið eftir að það kemur fram, þykir líklegast að þau verði mest á næsta ári.
„Við búumst við að næstu tvö ár verði alvarleg hækkun á hitastigi á heimsvísu,“ segir Okia.