Stofnandi ChatGPT kallar eftir regluverki

Sam Altman sat fyrir svörum í dag.
Sam Altman sat fyrir svörum í dag. AFP/Win McNamee

Samu­el Altman, fram­kvæmda­stjóri OpenAi og einn af stofn­end­um spjall­menn­is­ins Chat­G­PT, hef­ur kallað eft­ir því að þing­menn setji skorður við gervi­greind­ar­tækni. Þetta kom fram í máli hans er hann sat fyr­ir svör­um um mállíkanið og gervi­greind­ar­tækni á Banda­ríkjaþingi í dag.

Þing­menn ít­rekuðu áhyggj­ur sín­ar af þróun gervi­greind­ar en til að vekja at­hygli á málstaðnum var spjall­menni látið lesa upp til­kynn­ingu sem skrifuð var af gervi­greind, við upp­haf fund­ar.

Tölvu­gerða rödd spjall­menn­is­ins hljómaði nán­ast al­veg eins og rödd Rich­ards Blu­ment­hals þing­manns. 

„[Gervi­greind­ar­tækni] er meira en bara rann­sókn­ar­tilraun. Þetta eru ekki leng­ur draumór­ar um vís­inda­skáld­skap, þetta er raun­veru­legt,“ sagði Blu­ment­hal.

Get­ur farið gjör­sam­lega úr­skeiðis

„Ef þessi tækni fer úr­skeiðis get­ur hún farið gjör­sam­lega úr­skeiðis,“ sagði Altman en hann hvatti þingið til að koma á reglu­verki um tækn­ina.

Rík­is­stjórn­ir hafa þurft að bregðast hratt við eft­ir að spjall­menn­inu var hleypt af stokk­un­um. Altman hef­ur síðan orðið eins kon­ar talsmaður gervi­greind­ar­inn­ar.

„OpenAI var stofnað með það í huga að gervi­greind hafi get­una til þess að bæta næst­um alla þætti í okk­ar lífi, en einnig að hún skapi al­var­lega áhættu,“ sagði Altman.

Hann held­ur því fram að með tím­an­um muni gervi­greind­ar­tækn­in tak­ast á við stærstu áskor­an­irn­ar sem mann­kynið stend­ur frammi fyr­ir, nefn­ir hann meðal ann­ars lofts­lags­breyt­ing­ar og krabba­mein.

Hann taldi þó íhlut­un stjórn­valda nauðsyn­lega til að aðstoða við að beina tækn­inni í rétt­an far­veg, sér­stak­lega með öfl­ugri mód­el­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert