Samuel Altman, framkvæmdastjóri OpenAi og einn af stofnendum spjallmennisins ChatGPT, hefur kallað eftir því að þingmenn setji skorður við gervigreindartækni. Þetta kom fram í máli hans er hann sat fyrir svörum um mállíkanið og gervigreindartækni á Bandaríkjaþingi í dag.
Þingmenn ítrekuðu áhyggjur sínar af þróun gervigreindar en til að vekja athygli á málstaðnum var spjallmenni látið lesa upp tilkynningu sem skrifuð var af gervigreind, við upphaf fundar.
Tölvugerða rödd spjallmennisins hljómaði nánast alveg eins og rödd Richards Blumenthals þingmanns.
„[Gervigreindartækni] er meira en bara rannsóknartilraun. Þetta eru ekki lengur draumórar um vísindaskáldskap, þetta er raunverulegt,“ sagði Blumenthal.
„Ef þessi tækni fer úrskeiðis getur hún farið gjörsamlega úrskeiðis,“ sagði Altman en hann hvatti þingið til að koma á regluverki um tæknina.
Ríkisstjórnir hafa þurft að bregðast hratt við eftir að spjallmenninu var hleypt af stokkunum. Altman hefur síðan orðið eins konar talsmaður gervigreindarinnar.
„OpenAI var stofnað með það í huga að gervigreind hafi getuna til þess að bæta næstum alla þætti í okkar lífi, en einnig að hún skapi alvarlega áhættu,“ sagði Altman.
Hann heldur því fram að með tímanum muni gervigreindartæknin takast á við stærstu áskoranirnar sem mannkynið stendur frammi fyrir, nefnir hann meðal annars loftslagsbreytingar og krabbamein.
Hann taldi þó íhlutun stjórnvalda nauðsynlega til að aðstoða við að beina tækninni í réttan farveg, sérstaklega með öflugri módelum.