Íslenskan í vasanum

Vefnámskeiðið Icelandic Online 5 hefur nú verið uppfært og gert …
Vefnámskeiðið Icelandic Online 5 hefur nú verið uppfært og gert aðgengilegt fyrir snjallsíma. Á myndinni eru þau sem unnu að uppfærslunni, María-Carmela Raso, Jón Karl Helgason, Daisy L. Neijmann og Lovísa Helga Jónsdóttir. Á myndina vantar Úlf Alexander Einarsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nýr hluti vefnámskeiðsins Icelandic Online hefur nú verið uppfærður og gerður aðgengilegur fyrir snjalltæki. Vefnámskeiðið, sem áður var einungis aðgengilegt í tölvu, má því nálgast í snjallsímanum í vasanum.

Icelandic Online eru sex vefnámskeið í íslensku fyrir fullorðna. Unnið hefur verið að því að gera námskeiðin aðgengileg fyrir snjalltæki og er lokahluti þeirra, Icelandic Online 5, nú kominn í hið nýja umhverfi. 

Í nýuppfærðum hluta íslenskunámskeiðsins er höfuðáhersla lögð á flóknari orðaforða og menningarlæsi. Námskeiðið skiptist í þrettán ólíka kafla sem hver um sig samanstendur af fyrirlestri, textum úr íslenskum fjölmiðlum og bókmenntum og æfingum þar sem unnið er með viðkomandi orð og orðasambönd. 

Öll námskeiðin eru sjálfstýrð og opin öllum til notkunar. Auk þess að henta sjálfstýrðu námi eru námskeiðin notuð í skipulögðu námi við Háskóla Íslands og ýmsa erlenda háskóla þar sem nútímaíslenska er kennd.

Icelandic Online 5 er samstarfsverkefni Háskóla Íslands við aðra háskóla og stofnanir. Yfirfærslan var kostuð af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert