Svikahrappi í Kína tókst að sannfæra viðskiptamann um að millifæra 4,3 milljónir yuan á reikning sem hann taldi tilheyra vini sínum.
Með hjálp gervigreindar tókst svikahrappinum að breyta útliti og rödd sinni í tölvu svo hann leit út fyrir að vera náinn vinur viðskiptamannsins.
Er svikahrappurinn hringdi myndsímtal í Guo, viðskiptamanninn, taldi sá síðarnefndi sig vera að ræða við náinn vin sinn.
Í símtalinu sannfærði fjársvikarinn Guo um að millifæra 4,3 milljónir yuan, eða því sem nemur 86 milljónum íslenskra króna, í þeim tilgangi að hjálpa öðrum vini.
Fjársvikarinn sagði að peningana yrði að millifæra af bankareikningi fyrirtækis en bað auk þess um reikningsnúmer Guo og laug að honum að upphæðin yrði millifærð að fullu inn á hans persónulega bankareikning.
Áður en að Guo millifærði á svikahrappinn af bankareikningi fyrirtækis síns sendi fjársvikarinn honum skjáskot sem sýndi að búið væri að greiða upphæðina inn á persónulega reikning hans. Guo treysti fjársvikaranum, sem hann taldi vera vin sinn, og millifærði upphæðina án þess að athuga hvort féð hefði skilað sér á persónulega reikninginn hans.
Það var ekki fyrr en Guo sendi skilaboð á vin sinn, sem hann taldi sig hafa verið í samskiptum við, að Guo gerði sér grein fyrir því að hann hefði orðið fyrir barðinu á fjársvikara.
Vinurinn kannaðist að sjálfsögðu ekkert við að hafa beðið um millifærsluna og kom því af fjöllum.
Guo leitaði þá til lögreglunnar sem gerði bankanum viðvart um svikin og var millifærslan í kjölfarið stöðvuð. Tókst Guo að endurheimta um 3,4 milljónir yuan af heildarupphæðinni en vinna stendur yfir við að endurheimta það sem út af stendur. Ekki liggur fyrir hvort lögreglunni hafi tekist að hafa hendur í hári fjársvikarans.