Sérfræðingar hafa nýverið tjáð sig um framtíð gervigreindarinnar og varað við hættunni sem henni fylgir. Ekki eru allir á sömu skoðun en stöndum við nú þegar frammi fyrir ýmsum áskorunum að mati gervigreindar sérfræðings.
„Það er ástæða fyrir menn til að hugsa til baka til atburða fyrri áratuga þegar kemur að öflugri tækni og nýrri tækni, sem lög og siðareglur halda ekki alveg utan um. Það er alveg á hreinu að það eru hliðarverkanir af þessu sem erfitt er að sjá fyrir og svo aðrar sem er kannski auðveldara að sjá og jafnvel þegar byrjaðar að sjást.“ segir Kristinn Rúnar Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands, í samtali við mbl.is.
Segir hann að mikilvægt sé að skoða gervigreindina í samanburði við aðra tækni. Líta þurfi á þau heildrænu áhrif sem hún hefur og misbeitingu vísindalegrar þekkingar. „Eins og öll vísindaleg þekking er þetta tvíeggja sverð og tækifærin gífurleg en samt viljum við reyna að útiloka allar neikvæðar hliðar eins og hægt er. En hvað varðar þessar forspár þá er nú langstærsti hlutinn af þeim kannski í ýktari kantinum, en það er kannski bara það sem þarf til að fá athygli stjórnvalda og almennings,“ segir Kristinn aðspurður hvort að hættan sem fylgi gervigreindinni sé jafn alvarleg og sérfræðingar hafa sagt.
Kristinn greinir frá því að einhver hluti af vánni sem fólk talar um þegar kemur að gervigreind sé að hún muni taka völdin og verja sig gegn því að hægt sé að taka hana úr sambandi. Aftur á móti sé gervigreindin enn í blábyrjun og að ekki sé búið að ná utan um kjarna greindar sem slíkrar og að við séum ekki enn með nein kerfi sem eru greind í alvörunni.
„Það verður að hafa í huga að langflestir þessara sérfræðinga sem eru að tjá sig hafa einhverra fjárhagslegra hagsmuna að gæta“. Hann ítrekar að mikilvægt sé að líta til sögunnar í þessu samhengi. „Árið 1997 vann Deep Blue, Kasparov. Það var fyrsta vélin sem vann heimsmeistara í skák og eftir þann sigur eyddi IBM milljörðum dollara í að nota hana í eitthvað annað en þeim tókst það ekki og þeir gáfust svo upp eftir tvö ár“. Bætir hann við að menn voru búnir að spá því að þegar þeir fengu tölvu sem gæti unnið heimsmeistara í skák hlyti hún að geta gert allt sem manneskjur geta gert og meira til en raunin var önnur.
„Við erum að sjá þessar vélar eins og Chat GPT, að það séu vísbendingar um að þær séu með alhliða greind en þeir ná þeirri niðurstöðu með því að halda niður í sér andanum, píra augun, halda fyrir eyrun og söngla smá og þá kannski geta þeir ímyndað sér að það séu möguleg einhverjar vísbendingar um það,“ segir hann.
„En það gildir bara eins og áður í vísindum að þú verður að geta endurtekið niðurstöður og rökstutt þær vel. Það er ekki nóg að ein rannsóknarstofa, ég tala nú ekki um í eigu eins fyrirtækis, segi eitthvað og allir taki það gilt, heldur höfum við í vísindasamfélaginu komið kerfi á sem spornar gegn því að svona sé tekið alvarlega. Við tökum þetta alvarlega þá fyrst að vísindin geti rökstutt af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru,“ segir Kristinn en sjálfur hefur hann verið að stunda rannsóknir á gervigreind í meira en 30 ár.
Hvað varðar kosti og galla gervigreindarinnar segir Kristinn að það sé kannski svolítið erfitt að gera grein fyrir þeim öllum enda sé gervigreindin alltaf á hreyfingu og ýmislegt eigi enn eftir að koma í ljós. Telur hann hins vegar að hið gífurlega magn gagna sem gervigreindin notist við gæti leitt til ákveðinna vangaveltna. „Greindin kemur frá greindarverum og án þessa efnis væru vélarnar ekki neitt, og mér finnst að þegar verið sé að vinna með texta og myndir þurfi að taka á því hver sé réttur þessara stórfyrirtækja til að taka þessi hugverk og mata vélarnar með því?“. Bætir hann því við að þetta sé ekki endilega ein af stóru neikvæðu hliðunum, því þetta ógni kannski ekki lýðræði en þetta hefur án efa áhrif á þjóðfélög.
Tekur hann einnig fram að mikilvægt sé að huga að því að setja einhvern lagaramma í kringum gervigreindina og að beiting tækninnar eigi að vera í brennidepli þegar settar eru reglur um hana. Líta verði til þeirrar raunverulegu hættu sem gæti skapast. Hægt sé að líta lengur fram í tímann en það þurfi fyrst og fremst að huga að núinu og forgangsraða þeim hættum sem standa frammi fyrir okkur nú. Ítrekar hann það að við séum nú þegar með viðvarandi ógn og það sé auðveldara að gera lagaramma um það sem sé í gangi núna en það sem gæti gerst. „Að hugsa um einhverjar hliðar vísindaskáldskapar um hvað gæti gerst tefur og þvælist fyrir framförum" segir hann að lokum.