Banna snjalltæki í kennslustofum

Snjalltækin eru fyrir löngu orðin fastur liður í lífi flestra. …
Snjalltækin eru fyrir löngu orðin fastur liður í lífi flestra. Það er þó ekki svo snjallt að vera bundin við tækin öllum tímum, ekki síst ef þau valda truflunum í kennslustofunni. AFP

Ríkisstjórn Hollands hefur tilkynnt að ýmis snjalltæki, s.s. farsímar, verði bönnuð í kennslustofum. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að notkun tækjanna í tíma trufli kennslu. 

Verkefnið er unnið í samvinnu við skólastofnanir og á bannið að taka gildi í byrjun næsta árs. 

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins að á þessu verði þó nokkrar undantekningar. T.d. fyrir nemendur sem búa við fötlun eða þurfa á slíkum tækjum að halda. Einnig verði heimilt að nota slík tæki í tímum þar sem verið er að kenna nemendum að auka færni sína í stafrænni þekkingu. 

Banninu verður í upphafi ekki framfylgt með viðurlögum, en það gæti breyst í framtíðinni. 

„Þrátt fyrir að snjallsímar séu nánast samofnir okkar lífi, þá eiga þeir ekki heima í kennslustofum,“ segir Robbert Dijkgraaf, menntamálaráðherra Hollands. 

„Nemendur verða að geta einbeitt sér og fá öll tækifæri til að læra á sama tíma. Vísindarannsóknir sýna fram að að farsímar trufla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert