Nýtt Alzheimerlyf talið marka tímamót

Lyfið er sagt hægja á framgangi sjúkdómsins
Lyfið er sagt hægja á framgangi sjúkdómsins Ljósmynd/Colourbox

Niðurstöður sem voru birtar í dag sýna fram á að lyfið donanemab hægir á hrönu heila Alzheimersjúklinga um þriðjung. Lyfið er sambærilegt lyfinu lecanemab sem hefur verið lofað af vísindasamfélaginu. 

Þetta kemur fram í frétt BBC, en greint var frá niðurstöðunum í tímaritinu JAMA í dag.

Lyfið og virkni þess er á rannsóknarstigi en frumniðurstöður benda til þess að þróun sjúkdómsins sé þriðjungi hægari hjá þeim sem taka lyfið, en hinum sem taka það ekki.

Lyfið er sagt hægja á minnistapi og fá þátttakendur í rannsókninni lyfið mánaðarlega, en sjúklingum er gefið það á fyrstu stigum sjúkdómsins. Donanemab vinnur gegn beta amyloid-próteininu sem myndar skellur í heila einstaklinga með sjúkdóminn.

Hinn áttræði Mike Colley er einn fárra sjúklinga í Bretlandi sem tók þátt í alþjóðlegri prófun á lyfinu. Hann segist vera „ein heppnasta manneskja sem fólk muni hitta“. 

Colley og fjölskylda hans tóku eftir því að hann átti orðið erfitt með að muna og taka ákvarðanir skömmu áður en hann tók þátt í prófun á lyfinu. 

Sonur hans, Mark, sagði að mjög erfitt hafi verið að horfa upp á einkenni föður hans til að byrja með en að hann sé mun betri eftir að hafa fengið donanemab. 

„Ég hélt að ég myndi aldrei sjá föður minn svo fullan af lífsgleði aftur. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Mark en faðir hans hélt upp á 80 ára afmælið í apríl og söng þá óvænt fyrir gesti. 

Ekki áhættulaust

Notkun lyfsins donanemab er þó ekki áhættulaus, en bólga í heila er sögð algeng aukaverkun hjá allt að þriðjungi sjúklinga sem tóku þátt í rannsókninni.

1.736 manns á fyrstu stigum Alzheimersjúkdómsins á aldrinum 60 til 85 tóku þátt í rannsókninni. Helmingur þeirra fékk donanemab mánaðarlega og hinn helmingurinn lyfleysu í 18 mánuði. 

Að minnsta kosti tveir létust í prófun á lyfinu vegna aukaverkanna. 

Öðru sambærilegu lyfi, aducanumab, var nýlega hafnað af evrópskum lyfjaeftirlitum vegna möguleika á hættulegum aukaverkunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert